Hagnast á kvölum annarra

Samkvæmt upplýsingum frá bandarísku lýðheilsustofnuninn létust 53 þúsund Bandaríkjamenn úr …
Samkvæmt upplýsingum frá bandarísku lýðheilsustofnuninn létust 53 þúsund Bandaríkjamenn úr ofneyslu ópíóíða árið 2016. AFP

Sackler-fjölskyldan er ein sú ríkasta í Bandaríkjunum en auðurinn er að mestu til kominn af sölu á lyfinu OxyContin. Lyfi sem á stóran þátt í því að yfir 200 þúsund Bandaríkjamenn hafa dáið af of stórum skammti frá árinu 1999. Fjölskylda sem hagnast á kvölum annarra.

Bræðurnir þrír voru allir menntaðir læknar.
Bræðurnir þrír voru allir menntaðir læknar. Skjáskot af bræðrunum þremur

Ættarnafn þriggja bræðra, þeirra Arthur, Mortimer og Raymond Sackler sést víða þegar farið er um helstu listasöfn og gallerí heims, háskóla, sjúkrahús og virtar vísindastofnanir. En þegar lyfjafyrirtækið Purdue Pharma er sótt heim, hvort sem það er í raunheimum eða netheimum, sést það varla. Enda hefur fjölskyldan farið hljótt. Svo hljótt að það var ekki fyrr en árið 2015 sem Forbes-tímaritið áttaði sig á auðæfum hennar. Það ár voru eignir fjölskyldunnar metnar á 14 milljarða Bandaríkjadala, sem svarar til 1.438 milljarða íslenskra króna. Sackler-fjölskyldan hefur skotið Rockefeller-fjölskyldunni ref fyrir rass þegar kemur að veraldlegum eignum en ólíkt Rockefeller þá er stór hluti eigna Sackler kominn til á síðustu árum. Eða allt frá því Purdue Pharma setti OxyContin á markað árið 1996. 

Samsvarar 11. september 2001 á þriggja vikna fresti

Samkvæmt upplýsingum frá bandarísku lýðheilsustofnuninni, Centers for Disease Control, létust 53 þúsund Bandaríkjamenn úr ofneyslu ópíóíða árið 2016 en sama ár létust 36 þúsund í bílslysum. 35 þúsund létust af völdum skotsára það ár. Fjöldinn sem deyr úr ofneyslu í Bandaríkjunum samsvarar því að hryðjuverkin sem voru framin 11. september 2001 endurtækju sig á þriggja vikna fresti. Sem skýrir kannski hvers vegna forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, talar um plágu þegar hann talar um ópíóíða og lýsti yfir neyðarástandi vegna misnotkunar þeirra á síðasta ári. Síðast var lýst yfir neyðarástandi á heilbrigðissviði í Bandaríkjunum árið 2009 þegar H1N1-flensu-faraldurinn geisaði.

Lyfjafíkn leiðir marga í heróín þar sem það er mun …
Lyfjafíkn leiðir marga í heróín þar sem það er mun ódýrara og auðveldara að útvega sér það á svörtum markaði en lyfseðilsskyld lyf. AFP

Vandi sem hófst fyrir 20 árum

Ólaf­ur B. Ein­ars­son, verk­efna­stjóri lyfja­mála hjá embætti land­lækn­is, hefur fjallað mikið um ópíóíða og hættuna á fíkn. Í grein sem hann skrifaði í sumar kom fram að árið 2015 glímdu tvær millj­ón­ir Banda­ríkja­manna, tólf ára og eldri, við al­var­lega fíkn vegna ávísaðra ópíóíða og 600 þúsund glímdu við ópíóíðafíkn sem fólst í notk­un heróíns. Ef sam­bæri­leg­ur vandi væri til staðar á Íslandi glímdu yfir tvö þúsund Íslend­ing­ar við al­var­leg­an fíkni­vanda vegna ávísaðra ópíóíða.

„Þetta eru óhugn­an­leg­ar töl­ur en í frétta­flutn­ingi hef­ur verið rætt um aðgerðir sem banda­rísk heil­brigðis­yf­ir­völd hafa ráðist í til að reyna að sporna við ástand­inu en um­fjöll­un­in hef­ur einnig snú­ist um að greina hvaða ástæður liggja að baki vand­an­um. Þessi mikli vandi hófst fyr­ir rúm­um tutt­ugu árum með markaðssetn­ingu lyfja­fyr­ir­tækja á nýj­um lyfj­um sem áttu að virka vel gegn verkj­um en áttu ekki að skapa fíkni­vanda,“ seg­ir í grein Ólafs.

Ópíóíða-vand­inn í Banda­ríkj­un­um er að mestu leyti tengd­ur við eitt lyf sem inni­held­ur oxýcódón. Lyfið kom á markað 1939 í Banda­ríkj­un­um og átti að vera sam­bæri­legt lyf og morfín. Lyfið hafði stutt­an verk­un­ar­tíma og þurftu þeir sem tóku það við krón­ísk­um verkj­um að taka það með jöfnu milli­bili all­an sól­ar­hring­inn.

Markaðssett sem öruggara form ópíóíða

Þegar Pur­due Pharma setti lyfið OxyCont­in á markað var það markaðssett sem ör­ugg­ara form ópíóíðaOxyCont­in var selt sem forðahylki en við inn­töku frá­sog­ast inni­haldið yfir ákveðinn tíma og átti þannig að koma í veg fyr­ir háan topp á styrk inni­halds­efn­anna í blóði sem draga átti úr hættu á ávana­bind­ingu lyfs­ins. Fólk komst hins veg­ar að því að hægt var að kremja hylk­in og ná úr þeim duft­inu og sniffa það eða leysa upp og sprauta sig með því. Á þann hátt aukast áhrif lyfj­anna marg­falt miðað við að þau séu tek­in um munn en jafn­framt aukast lík­ur á önd­un­ar­bæl­ingu sem er meg­in­or­sök dauðsfalla.

Höfuðstöðvar Purdue Pharma.
Höfuðstöðvar Purdue Pharma. Vefur Purdue Pharma

Í markaðssetn­ingu á OxyCont­in var lækn­um tal­in trú af lyfja­fram­leiðand­an­um að hætta á ávana­bind­ingu væri lít­il og að lyfið hentaði vel við krón­ísk­um verkj­um vegna þess að lyfið los­ar oxýkó­dón hægt yfir 12 klukku­stund­ir. Annað kom í ljós því fjöldi fólks ánetjaðist lyfj­un­um og þeir sem tóku lyf­in við krón­ísk­um verkj­um þróuðu einnig með sér mik­inn fíkni­vanda, seg­ir Ólaf­ur.

Miklu frekar markaðsmenn en læknar

Í grein sem birt var í New Yorker í vetur kemur fram að Sackler-bræðurnir þrír, sem allir voru menntaðir læknar, hafi miklu frekar verið markaðsmenn en læknar. Því þeir fóru ungir að hagnast á því að markaðssetja lyf og fleiri vörur. 

Sackler-fjölskyldan sker sig samt ekki úr hvað varðar auð því fjölmargir hafa hagnast um milljarða á framleiðslu tóbaks, bíla og skotvopna en yfirleitt tengist auðurinn ekki bara einni vöru líkt og í tilviki fjölskyldunnar hvað varðar OxyContin.

Felur tengsl sín við vöruna

Fords, Hewletts, Packards, Johnsons — allar þessar fjölskyldur tengja nafn sitt við framleiðslu sína og segir Keith Humphreys, prófessor í geðlækningum við Stanford University School of Medicine, það vera vegna þess að fjölskyldurnar eru stoltar af vörunni. 

„Sackler [fjölskyldan] hefur falið tengsl sín við framleiðsluna. Þeir kalla það ekki Sackler Pharma. Þeir nefna jafnvel ekki töflurnar sínar Sackler pills. Þegar þeir eru spurðir þá segja þeir að þetta sé einkafyrirtæki og þeir séu fjölskylda sem vilji halda fast í friðhelgi sína,“ segir hann. 

Fjórir af hverjum fimm sem enda í heróíni byrjuðu í lyfjum

Líkt og fram hefur komið enda margir þeirra sem verða háðir verkjalyfjum í heróíni enda mun auðveldara og ódýrara að verða sér úti um það en lyfseðilsskyld lyf. Samkvæmt upplýsingum frá American Society of Addiction Medicine hafa fjórir af hverjum fimm sem prófa heróín byrjað sína fíkn í lyfseðlisskyldum lyfjum. Nýjustu tölur frá Centers for Disease Control and Prevention benda til þess að allt að 143 Bandaríkjamenn deyi daglega úr of stórum skammti af ópíóíðum.
Ekki má gleyma því að ópíóíðar og önnur verkjalyf nýtast …
Ekki má gleyma því að ópíóíðar og önnur verkjalyf nýtast vel fyrir til að mynda þjáða krabbameinssjúklinga. Wikipedia/Calleamanecer

Þeir sem hafa rannsakað og fylgst lengi með ópíóíðamarkaðnum í Bandaríkjunum segja að vandinn varðandi fíkn í lyfseðilsskyld lyf hafi stökkbreyst árið 1996. Þar sem læknar hafi í auknu mæli farið að skrifa upp á slík lyf fyrir sjúklinga sína. Breyting sem var vandlega stýrt af Purdue.

Það ár fór OxyContin á markað og fjölliða herferð fyrirtækisins gagnvart grunlausum læknum fór af stað. 

Sonur Raymond Sackler, Richard, fór þar fremstur í flokki. Hann er læknir líkt og faðir hans og föðurbræður. Richard hóf störf hjá Purdue 1971 sem aðstoðarmaður föður síns og vann sig upp til metorða innan fyrirtækisins. Í raun er hann sá eini í fjölskyldunni sem hefur lagt nafn sitt við lyfjafyrirtækið en samt sem áður hefur hann, ekkert frekar en bræðurnir þrír, verið saksóttur fyrir sinn hlut í því að markaðssetja OxyContin sem skaðlaust lyf. 

Oxycodone, sem er ódýrt að framleiða, var þegar í notkun í öðrum lyfjum eins og Percodan (en þá er því blandað saman við aspirin) og Percocet (en þar er því blandað saman við tylenol). Purdue bjó til töflur með hreinu oxycodone og var ákveðið að meginframleiðslan yrði 10 milligramma töflur en einnig júmbótöflur sem innihéldu 80 og 160 milligrömm af oxycondone.

Ein tafla getur valdið dauða

OxyCont­in er á markaði á Íslandi en sem dæmi um hversu sterk lyf­in eru gæti ein 80 mg tafla valdið dauða vegna ofskömmt­un­ar hjá þeim sem hef­ur ekki myndað þol gegn lyf­inu. Þessi skammt­ur gæti hins veg­ar verið eðli­leg­ur til verkj­astill­ing­ar fyr­ir þann sem hef­ur myndað þol gegn lyf­inu. Á fyrri hluta árs­ins 2017 fengu 43 ein­stak­ling­ar ávísað yfir tvö­föld­um skammti af Oxycodo­ne hvern dag sem er 22,8 pró­sent aukn­ing frá 2016. Hafa ber í huga að marg­ir þeir sem fá slíka skammta gætu verið að glíma við al­var­leg veik­indi eða í líkn­andi meðferð vegna krabba­meins,“ seg­ir Ólaf­ur B. Einarsson.

Afl sem minnir á kjarnorkusprengju 

Eins og Barry Meier skrifar í bókinni Pain Killer: A „Wonder“ Drug's Trail of Addiction and Death, má líta á OxyContin sem kjarnorkusprengju ef horft er á afl eiturlyfja. Meier er blaðamaður hjá New York Times og hefur verið tilnefndur til fjölmargra verðlauna fyrir störf sín á því sviði. 

Áður en OxyContin var sett á markað setti Purdue saman rýnihópa lækna og var niðurstaðan sú að það sem helst gæti komið í veg fyrir mikla útbreiðslu lyfsins væri ótti við misnotkun ópíóíða.

Svo vel vildi til, fyrir framleiðendur OxyContin, að um svipað leyti og lyfið fór á markað varð sú umræða háværari meðal lækna að það væri tímabært að draga úr þeim áhyggjum sem væru varðandi ópíóíða og hættuna á að fólk ánetjaðist slíkum lyfjum.

Lyf sem íslenskir sprautufíklar leita mest í.
Lyf sem íslenskir sprautufíklar leita mest í. mbl.is/Golli

Gjöf frá náttúrunni í boði Purdue

Þekktir og virtir læknar, eins og Russell Portenoy, sérfræðingar í verkjum og krabbameinslæknar fóru að tala um kosti þess að gefa ópíóíðalyf við þrálátum verkjum.

Portenoy sagði í viðtali við Times árið 1993 að allt bendi til þess að óhætt væri að nota þessi lyf til lengri tíma og þeim fylgdu fáar aukaverkanir. Lýsti hann ópíóíðum sem gjöf frá náttúrunni en var hins vegar ekkert að geta þess að hann fengi greiðslur frá Purdue. Hann bætti um betur og talaði um læknamýtu þegar áhyggjur af fíkn og misnotkun bar á góma. 

Árið 1997 birtu síðan American Academy of Pain Medicine og American Pain Society yfirlýsingu þar sem mælt var með notkun ópíóða sem meðferð við þrálátum verkjum. Yfirlýsingin var rituð af nefnd sem var stýrt af Dr. J. David Haddox, sem var á launum sem fyrirlesari hjá Purdue.

Leyft þrátt fyrir skort á rannsóknum

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (e. Food and Drug Administration) samþykkti OxyContin árið 1995 sem lyf við svæsnum verkjum. Leyfið fékkst þrátt fyrir að Purdue hafi ekki unnið neinar klínískar rannsóknir á því hversu mikil hætta væri á að fólk ánetjaðist lyfinu eða hversu líklegt það væri að lyfið yrði misnotað. 

Samt sem áður steig FDA það óvenjulega skref að samþykkja að inni í OxyContin-pakkningunum kæmi fram á fylgiseðlinum að lyfið væri öruggara en önnur verkjalyf þar sem minni líkur væru á ávanabindingu. Sá sem hafði yfirumsjón með skráningarferlinu hjá FDA hætti fljótlega eftir þetta hjá stofnuninni enda hafði hann ráðið sig til starfa hjá Purdue.

Richard Blumenthal, sem var ríkissaksóknari í Connecticut, ritaði Richard Sackler bréf í júlí 2001 þar sem hann lýsti yfir áhyggjum sínum af vandamálum og stigvaxandi misnotkun á OxyContin. Í bréfinu talar hann um fjölda þeirra sem hafa tekið of stóra skammta af lyfinu, fíkn, rán í apótekum og sífellt aukinn kostnað ríkisins vegna ávísana lækna á OxyContin í gegnum Medicaid og Medicare.

Blumenthal tekur fram að önnur lyfseðilsskyld lyf séu misnotuð en OxyContin sé öðruvísi. „Það er öflugra, meira ávanabindandi, meira selt, meira framboð þess á ólöglegum markaði og þekktara,“ skrifar hann og hvatti Purdue til þess að gera breytingar á markaðssetningu á OxyContin.

Temple of Dendur á The Metropolitan Museum of Art í …
Temple of Dendur á The Metropolitan Museum of Art í New York. Wikipedia

Sackler-fjölskyldan fór ekki að ráðleggingum Blumenthal og árið 2004 lagði hann fram formlega kvörtum vegna framferðis Purdue af hálfu Connecticut-ríkis. Þar vísaði hann meðal annars í að ekki væri lengur nægjanlegt fyrir þá sem notuðu lyfið að neyta þess á tólf tíma fresti líkt og haldið var fram því sífellt fleiri tóku það inn á átta tíma fresti. 

Málshöfðanir skipta þúsundum

En þetta var ekki það eina, kvartanir og málshöfðanir á hendur Purdue vegna OxyContin skipta þúsundum. En það hefur ekki skipt máli og Purdue yfirleitt samið við þá lögmenn sem hafa annast hópmálsóknir á hendur þeim. Enda hagnaðurinn gríðarlegur af sölu lyfsins. Er talið að tekjur Purdue af sölu OxyContin nemi yfir 35 milljörðum Bandaríkjadala, 3.600 milljörðum íslenskra króna. 

Richard Sackler hætti sem forstjóri Purdue árið 2003 en sat áfram í stjórn þess. Hann hefur líkt og faðir hans og föðurbræður verið duglegur að gefa fé til ýmissa málefna. Svo sem menningarstofnana og háskólastofnana.

Eða eins og blaðamaður Esquire bendir á hafa leiðtogar fjölskyldunnar náð þremur mikilvægum sigrum í markaðssetningu. Að selja OxyContin, að koma nafni Sackler-fjölskyldunnar á framfæri og í þriðja lagi að tryggja það að enginn tengi þetta tvennt saman, OxyContin og Sackler. 

Menning og menntun í boði Sackler

Nokkur dæmi um staði þar sem Sackler-nafnið er áberandi: Sackler-garðurinn í London við Victoria and Albert Museum, Sackler-álman á Metropolitan Museum of Art í New York, þar sem meðal annars Temple of Dendur skrínið er til húsa. Sackler-álman á Louvre í París og  álma með nafni fjölskyldunnar við Royal Academy í London, sérstakt Sackler-safn í Harvard og við háskóla í Peking,

Serpentine Sackler-galleríið.
Serpentine Sackler-galleríið. Wikipedia

Sackler kemur einnig víðar við. Svo sem á Smithsonian-safninu, Serpentine-galleríinu í London og Ashmolean í Oxford. Guggenheim-safnið í New York er með Sackler-miðstöð og  American Museum of Natural History státar af Sackler Educational Lab.

Nafn Sackler kemur fram á gyðingasafninu í Berlín, Tate Modern og í Kew Gardens. Jafnvel vinsæl bleik rós er nefnd eftir Sackler og ekki má gleyma smástirninu Sackler. 

En ef þú ferð í höfuðstöðvar Purdue Pharma sérðu hvergi nafn fjölskyldunnar hvernig sem á því stendur. 

Elsti bróðirinn Arthur Mitchell Sackler fæddist árið 1913 og lést árið 1987. Hann var þríkvæntur og hafa börn hans fjögur, öll af fyrri hjónaböndum, barist hatrammlega við ekkju hans, Gillian Lesley Tully, um yfirráð yfir auðæfum hans.

Mortimer David Sackler var næstelstur en hann fæddist árið 1916 og lést árið 2010. Hann var þríkvæntur eins og Arthur og lét eftir sig sjö börn.

Yngsti bróðirinn Raymond Sackler fæddist árið 1920 og lést síðasta sumar. Hann var ólíkt bræðrum sínum kvæntur sömu konunni alla tíð, Beverly Feldman, og eignuðust þau tvö börn, Richard og Jonathan. Richard er sá eini af afkomendum bræðranna þriggja sem hefur unnið hjá lyfjafyrirtækinu en hin hafa komið víða við og notið góðs af auðæfum fjölskyldunnar.

Slapp naumlega undan áþján fíknar

Í janúarhefti tímaritsins Artforum er að finna grein eftir ljósmyndarann Nan Goldin sem lýsir því hvernig hún hafi orðið háð OxyContin og hvernig hún slapp naumlega á lífi. Goldin segir Sackler-fjölskylduna ábyrga, en nafn fjölskyldunnar er ekki bara að finna á mörgum listasöfnum og háskólum heldur einnig bókasöfnum og sjúkrahúsum.

„Þau hafa þvegið blóðpeningana sína í gegnum sali safna og háskóla út um allan heim,“ skrifar hún. „Við krefjumst þess að Sackler og Purdue Pharma noti auðæfi sín til þess að fjármagna meðferðarstofnun fyrir fíkla og fræðslu. Það má engan tíma missa.“

30 andlát til skoðunar hið minnsta

Árið 2016 voru 48 andlát til skoðunar hjá embætti landlæknis vegna gruns um að andlát mætti rekja til lyfjaeitrunar, sama ár eru skráð andlát í dánarmeinaskrá vegna ópíóíða 17. 

Það sem komið er af andlátum til skoðunar fyrir árið 2017 eru 30 en það síðasta átti sér stað 13. nóvember og því eiga mögulega einhver eftir að bætast við, segir Ólafur B. Einarsson. 

Það sem af er árinu 2017 hefur oxycodone fundist í sýnum tveggja þeirra látnu einstaklinga sem voru til skoðunar en árið 2016 fannst OxyCodone í sýnum 9 einstaklinga.
 
„Embættið byrjaði á því að benda á hættuna vegna ópíóíða þegar ljóst var að mikil aukning yrði 2016 og þá staðreynd að OxyCodone væri að leika þar lykilhlutverk, segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Læknar vilja aðstoða sjúklinga sína sem eru kvaldir. En með …
Læknar vilja aðstoða sjúklinga sína sem eru kvaldir. En með því að ávísa ópíóíðalyfjum til lengri tíma getur sjúklingurinn orðið háður lyfjunum. Hlutfallið er mun hærra heldur en lyfjaframleiðendur hafa haldið fram. AFP

Á málstofu á Læknadögum í síðustu viku kom fram í máli Þórarins Tyrfingssonar læknis að 27 þeirra sem létust á Íslandi árið 2016 sem voru yngri en fertugt voru sjúklingar á Vogi einhvern tíma. Alls létust 53 á þessum aldri á Íslandi þetta ár. Í aldurshópnum 20-24 ára voru fimm af sex sem létust sjúklingar á Vogi. 

Hann segir að fíkn í sterka ópíóíða hafi vaxið hratt frá 1999 og fyrstu árin hafi Contalgine verið aðallyfið. Frá árinu 2013 hafi OxyCodone hins vegar verið aðallyfið. Árið 2016 hafi fíkn í sterkari ópíóíða náð áður óþekktri stærð en 166 sjúklingar á Vogi glímdu við fíkn af þessu tagi. Yfir 80% þessara sjúklinga nota þessi vímuefni í æð. Tölur liggja ekki fyrir um árið 2017.

Í gagnagrunninum á Vogi eru skráðir 24.277 einstaklingar. Aukning á ótímabærum dauðsföllum úr grunninum meðal þeirra ungu nú er vísbending um að bráðaþjónustu þeim til handa þarf að auka. Þjónustan er í höndum Vogs, Bráðamóttöku LSH, sjúkraflutninga og lögreglu. Allir þessir aðilar eru í fjársvelti og biðlistinn á Vogi hefur aldrei verið lengri, að sögn Þórarins.

Í sömu málstofu kom fram í máli Hjalta Más Björns­sonar, bráðalækn­is á bráðamót­töku Land­spít­al­ans, að sífellt oftar þurfi að gefa lyfið naloxo­ne í sjúkrabílum og á bráðamóttökunni en það er neyðar­lyf sem notað er til að koma í veg fyr­ir að fólk deyi úr ofskömmt­un af morfíni og öðrum ópíóíðalyfj­um. 

Sem dæmi af óhóflegri lyfjanotkun tók Magnús Ólason, læknir á Reykjalundi, dæmi af 47 ára gamalli konu sem lagðist inn á Reykjalund vegna þrálátra verkja. Þegar hún kom á Reykjalund var hún með 36 tegundir af lyfjum. Fyrstu vikurnar fóru því í að afeitra konuna og eftir tvo mánuði á Reykjalundi voru lyfin komin niður í 3 tegundir sem konan þurfti á að halda. 

Sackler-rósin en Sackler-nafnið kemur víða við – til að mynda …
Sackler-rósin en Sackler-nafnið kemur víða við – til að mynda er smástirni sem ber þetta nafn.

Ófeig­ur Tryggvi Þor­geirs­son, fag­stjóri lækn­inga á heilsu­gæsl­unni í Grafar­vogi, segir að á tveim­ur dög­um end­ur­nýjaði hann 15  lyf­seðla fyr­ir ópíóíðalyf en í flest­um til­vik­um var um að ræða parkó­dín forte. Í átta af 15 til­vik­um var viðkom­andi á fleiri lyfj­um, svo sem svefn­lyfj­um eða benzódíazepín-lyfj­um sem eru ró­andi lyf.

Að sögn Ófeigs var þetta upp til hópa fólk sem hann hafði aldrei séð áður og hann velti því fyr­ir sér hvort það sé vilji fyr­ir því að fólk sé ein­fald­lega í áskrift eft­ir slík­um lyfj­um. Til að mynda fólk sem glím­ir við þráláta verki. 

Eitt af því sem Ófeigur nefndi var þjónustulund læknis í garð sjúklinga. Til að mynda hvort gefa eigi kraftlyftingamanni á þrítugsaldri sem glímir við þráláta bakverki ópíóíðalyf að staðaldri. Eða einfaldega leita annarra lausna á vanda mannsins.

Vinsæl lyf meðal fíkla.
Vinsæl lyf meðal fíkla. mbl.is/Golli

David Juurlink, sem stýrir lyfjafræði- og eiturefnadeild háskólans í Toronto, lýsti því fyrir blaðamanni New Yorker hvernig vinsældir OxyContin megi að hluta skýra með þeirri staðreynd að læknar vilji trúa því að þeir séu að gera sjúklingum sínum gott með því að gefa þeim ópíóíðalyf við verkjum.

Helsta marmið lækna er að veita líkn við þjáningum og eitt af því helsta sem kemur á borð lækna er kvalið fólk. „Þú ert með sjúkling sem er kvalinn og þú ert með lækni sem raunverulega vill hjálpa,“ segir hann og bætir við að allt í einu hafi læknar staðið frammi fyrir lausn sem þeim var tjáð að væri örugg og áhrifarík – OxyContin. Afleiðingarnar sjáum við í dag. 

Artforum

New Yorker

Esquire

Huffington Post

TheDC

HonoluluCivilBeat

New York Times

New York Times

Guardian

Forbes

Hagnaður Sackler-fjölskyldunnar margfaldaðist eftir að OxyContin fór á markað.
Hagnaður Sackler-fjölskyldunnar margfaldaðist eftir að OxyContin fór á markað. Skjáskot af Forbes
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert