Fangaverðir í verkfall í kjölfar árása

Fjöldi árása á fangaverði í Frakklandi, af hálfu fanga, upp á síðkastið hafa leitt til allsherjarverfalls fangavarða í landinu.

Verkalýðsfélög hafa boðað tálmun á aðgengi að fangelsum landsins í dag á meðan kröfur um hækkun launa og aukið öryggi fangavarða eru ræddar við stjórnvöld. BBC greinir frá.

Nicole Belloubet, dómsmálaráðherra Frakklands, hefur sagst ætla að ræða við fulltrúa stéttarfélagana í dag í von um að binda endi deiluna. Í síðustu viku höfnuðu stéttarfélögin tilboði stjórnvalda. Dómsmálaráðneytið hefur hins vegar gert fulltrúum þeirra grein fyrir því að mikilvægt sé að halda samtalinu áfram því nauðsynlegt sé að halda fangelsum landsins gangandi.

Fangaverðir um allt land, þar á meðal verðir sem starfa í öryggisfangelsunum Fleury Mérogis og Fresnes sem staðsett eru rétt fyrir utan París, munu taka þátt í verkfallsaðgerðum og mótmælum í dag.

Líkt og áður sagði var boðað til verkfalls í kjölfar fjölda árása á fangaverði. Í síðustu viku urðu til að mynda þrír fangaverðir fyrir árás fanga í Fresnes-fangelsinu. Á sunnudag þurfti að leggja tvo fangaverði inn á sjúkrahús eftir að ráðist var á þá við störf í Loungenesse-fangelsinu í grennd við Calais.

„Enn og aftur er ráðist á starfsfólk, þetta getur ekki gengið lengur. Þetta er orðið daglegt brauð,“ sagði talsmaður eins stéttarfélags í samtali við AFP-fréttastofuna.

188 fangelsisstofnanir eru starfandi í Frakklandi og þar eru vistaðir um 78 þúsund fangar. Starfandi fangaverðir eru um 28 þúsund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert