Mæta ekki til vinnu í dag

AFP

Hundruð þúsunda starfmanna bandaríska alríkisins munu ekki mæta til vinnu í dag þar sem atkvæðagreiðslu um áframhaldandi fjárheimildir ríkisins var frestað þar sem ekki náðist samkomulag í öldungadeildinni. Nú er stefnt að atkvæðagreiðslu síðdegis í dag að íslenskum tíma.

Alríkinu var lokað á miðnætti á föstudag þegar ekki náðist samkomulag um tímabundnar fjárheimildir ríkisins. Þetta þýðir hins vegar ekki að allir starfsmenn alríkisins sitji heima launalausir því misjafnt er eftir stofnunum hvernig staða þeirra er fjárhagslega.

New York Times hefur tekið saman áhrifin og borið saman við stöðuna sem kom upp árið 2013 þegar alríkinu var síðast lokað.

Öldungadeildarþingmenn voru að störfum alla helgina sem ekki gerist oft en þrátt fyrir það tókst ekki að ná samkomulagi. 

Demókratar leggja áherslu á að forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, komi til viðræðna um málefni innflytjenda sem hluti af fjárlagaumræðunni. Repúblikanar segja aftur á móti að ekki sé hægt að komast að samkomulagi þar um á meðan stofnanir alríkisins eru lokaðar. Repúblikanar vilja fá aukið fé í landamæragæslu, þar á meðal byggingu múrs á landamærum Mexíkó og breytingar á innflytjendalöggjöfinni. Jafnframt að aukið fé verði lagt til varnarmála. 

Umræðum var frestað klukkan 21:30, sem er klukkan 2:30 í nótt að íslenskum tíma. Á sama tíma var ákveðið að fresta atkvæðagreiðslunni sem átti að hefjast klukkan sex í morgun að íslenskum tíma. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert