Gleymdi Twitter-lykilorðinu

Borgin Honolulu á Havaí. Íbúar hafa lýst því að þeir …
Borgin Honolulu á Havaí. Íbúar hafa lýst því að þeir hafi raun­veru­lega haldið að þeir væru að fara að deyja. AFP

David Ige, ríkisstjóra Havaí, var greint frá því að skilaboð um eldflaugaárás hefðu farið út fyrir mistök tveimur mínútum eftir að skilaboðin fóru í loftið. Engu að síður liðu 17 mínútur þar til skrifstofa ríkisstjórans sendi frá sér leiðréttingu.

Ástæða tafarinnar var sú að ríkisstjóranum gekk illa að muna lykilorðið að Twitter-reikningi sínum. 

Yf­ir­völd al­manna­varna á Havaí hafa ít­rekað beðist af­sök­un­ar á því að hafa óvart sent út skila­boð um yf­ir­vof­andi eld­flauga­árás á eyj­arn­ar laug­ar­daginn 13. janúar.

Skelfing greip um sig hjá mörgum og gripu sum­ir vatn og fóru ofan í kjall­ara eða að neyðar­skýl­um á eyj­un­um. Fólk hef­ur lýst því að það raun­veru­lega hélt að það væri að fara að deyja.

Ige viðurkenndi í gær að töfin sem varð á því að leiðréttingin var send út hafi verið því að kenna að hann mundi ekki lykilorð sitt. „Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki lykilorðið að Twitter-reikningi mínum og það er ein af þeim breytingum sem ég hef gert,“ sagði Ige í samtali við dagblaðið Honolulu Star Advertiser.

Almannavarnir á Havaí segja einnig öðrum verk­ferl­um haf­a verið breytt, en það tók stofnunina hálftíma að senda frá sér skilaboð þar sem boðin um eldflaugaárásina voru afturkölluð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert