Svíar krefjast lausnar bóksala

Mótmælendur í Hong Kong halda á spjöldum með myndum af …
Mótmælendur í Hong Kong halda á spjöldum með myndum af horfnum bókaútgefendum á þessari mynd sem var tekin árið 2016. AFP

Stjórnvöld í Svíþjóð hafa krafist þess að Kínverjar leysi bóksalann Gui Minhai úr haldi eftir að sænski ríkisborgarinn var handtekinn í annað sinn á meginlandi Kína er hann var á ferðalagi með sænskum erindrekum.

„Við vonumst til þess að ríkisborgara okkar verði sleppt úr haldi tafarlaust og að hann fái tækifæri til að hitta sænska erindreka og heilbrigðisstarfsfólk,“ sagði Margot Wallstrom, utanríkisráðherra Svíþjóðar, í yfirlýsingu.

Gui, sem er einn af fimm bóksölum í Hong Kong, sem eru þekktir fyrir safaríkar bækur um líf stjórnmálaelítunnar í Kína, hvarf fyrst árið 2015 en kom aftur upp á yfirborðið í varðhaldi á meginlandi Kína.

Kínversk yfirvöld segjast hafa sleppt Gui úr haldi í október. Ekki er aftur á móti ljóst hversu frjáls hann er ferða sinna.

Lögreglan gengur fram hjá myndum af fólki sem er saknað, …
Lögreglan gengur fram hjá myndum af fólki sem er saknað, þar á meðal Gui Minhai (til vinstri) árið 2016. AFP

Dóttir hans Angela Gui sagði við sænska útvarpsstöð að óeinkennisklæddir menn hefðu handsamað föður hennar er hann var staddur í lest á leið til Peking frá borginni Ningbo, þar sem hann býr. Með honum í för voru tveir sænskir erindrekar.

Gui var á leið til Peking til að hitta sænskan lækni vegna þess að hann hafði sýnt einkenni Lou Gehrig-taugasjúkdómsins, að sögn dóttur hans.

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa einnig krafist þess að Gui verði leystur úr haldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert