Tafir á flutningum rohingja

Rohingjar í flóttamannabúðunum í Bangladess.
Rohingjar í flóttamannabúðunum í Bangladess. AFP

Stjórnvöld í Búrma kenna Bangladessum um tafir á áætlunum um að flytja rohingja úr flóttamannabúðum í Bangladess og til Rakhine-héraðs í Búrma. Áætlunin gerði ráð fyrir að fólksflutningurinn myndi hefjast í þessari viku.

Að minnsta kosti 690 þúsund rohingjar hafa flúið undan ofsóknum hersins í Búrma og til Bangladess frá því í ágúst á síðasta ári. Um 100 þúsund voru þá þegar í flóttamannabúðum þar. 

Stjórnvöld í Bangladess segja að merki séu um ólgu í Rakhine-héraði, þar hafi brotist út skotbardagar og eldar verið kveiktir á síðustu dögum. 

Stjórnvöld í Búrma höfðu fallist á að byrja að taka á móti rohingjunum í dag. Byrja átti á því að flytja þá sem flúðu í október árið 2016 eða um 100 þúsund manns. Flóttamannabúðirnar í Cox's Bazar í Bangladess er yfirfullar. 

Embættismaður í Bangladess tilkynnti í gær að fólksflutningarnir myndu ekki hefjast í dag. Sagði hann skýringuna þá að enn ætti eftir að ljúka undirbúningi. 

Flóttafólkið sjálft hefur margt hvert sagt að það vilji ekki snúa aftur til Búrma þar sem það telji ástandið þar ótryggt. Í sama streng hafa mannúðarsamtök tekið, m.a. Amnesty International. Sameinuðu þjóðirnar segja að þjóðernishreinsanir hafi farið fram í Rakhine-héraði. 

Íbúar í Búrma halda því margir hverjir fram að rohingjar séu ólöglegir innflytjendur. Þeir hafi upprunalega komið frá Bangladess og aldrei öðlast ríkisborgararétt í Búrma. 

Samkvæmt samkomulaginu milli ríkjanna tveggja átti að senda 1.500 rohingja til Búrma í hverri viku næstu mánuði. Sögðu stjórnvöld í Búrma að settar hefðu verið upp flóttamannabúðir þeirra megin við landamærin þar sem taka átti á móti fólkinu áður en því yrði komið í varanlegra húsnæði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert