Plastmengun ógnar kóralrifunum

Kafari við kóralrif. Plastmengun er önnur stærsta ógnin við kóralrif. …
Kafari við kóralrif. Plastmengun er önnur stærsta ógnin við kóralrif. Mynd úr safni. AFP

Plastmengun er önnur stærsta ógnin sem kóralrif standa frammi fyrir að mati vísindamanna. Stærsta ógnin telst vera hlýnun sjávar. Plasthlutir fundust á þriðjungi kóralrifa í Asíuhluta Kyrrahafsins í nýlegri rannsókn sem BBC greinir frá, en alls fundust um 11 milljarðar plasthluta á rifunum.

Er magnið talið eiga eftir að aukast enn frekar og spá vísindamenn því að um 15 milljarðar plasthluta muni finnast á þessum sömu stöðum árið 2025.

Plastefni auka, samkvæmt rannsóknum, 20 falt hættuna á að sjúkdómar komi upp hjá kóralinum. Plastpokar, flöskur og hrísgrjónapokar voru meðal þeirra plasthluta sem fundust.

„Það er hryggilegt að sjá hversu margir plasthlutir finnast í kóralrifunum ...ef við getum farið að beina sjónum okkar að þeim sem menga mest, þá getum við vonandi dregið úr magninu sem endar á kóralrifunum,“ hefur BBC eftir dr. Joleah Lamb við Cornell háskóla í Ithaca í Bandaríkjunum. Plastið er ein stærsta ógn hafanna í augnablikinu,“ bætti hann við.

Rúmlega 275 milljónir manna reiða sig á kóralrifin m.a. fyrir fæðu, vernd strandlengjunnar og tekjur af ferðamönnum. Þá eru kóralarnir mikilvæg búsetusvæði fyrir ýmsar fisktegundir.

Talið er að plastefnin geri sjúkdómum sem herja á lindýr í hafinu kleift að þrífast vel. 

„Við rekumst oft á stóra hrísgrjónasekki eða stóra plastpoka,“ sagði Lamb, en oft flækist plastrusl í greinar kóralanna. „Við sjáum að þeir kóralar sem eru með mikinn greinavöxt eru átta sinnum líklegri til að fá slíkt plast flækt í sig.“

Greinin er birt í vísindatímaritinu Science og byggir á rannsóknum á 150 kóralrifum í nágrenni fjögurra landa á Asíuhluta Kyrrahafsins, en rannsóknin var framkvæmd á árunum 2011-2014.

Plastefni fundust á þriðjungi kóralrifanna sem voru skoðuð. Verst var ástandið á kóralrifum í nágrenni Indónesíu, en minnst var um plastefni á kóralrifum í nágrenni Ástralíu. Ástandið á kóralrifum Taílands og Búrma var þar mitt á milli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert