Sáu þrjóta hakka Demókrata

Hillary Clinton var forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í Bandaríkjunum árið 2016.
Hillary Clinton var forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í Bandaríkjunum árið 2016. AFP

Hollenskir leyniþjónustumenn urðu vitni að því þegar rússneskir tölvuþrjótar afrituðu þúsundir tölvupósta í eigu Demókrataflokksins í Bandaríkjunum í aðdraganda forsetakosninganna í landinu haustið 2016 og gerðu í kjölfarið bandarísku leyniþjónustunni viðvart.

Fjölmiðlar í Hollandi greina frá þessu í dag en hollenska leyniþjónustan AVID hafði fylgst með tölvuþrjótunum, sem kalla sig Cozy Bear, frá árinu 2014. AVID tókst ekki aðeins að brjótast inn í tölvukerfi þrjótanna, sem rekið er í háskólabyggingu í nágrenni Rauða torgsins í Moskvu, höfuðborgar Rússlands, heldur einnig öryggismyndavélakerfi þeirra.

Haft er eftir ónefndum heimildamanni í hollenska dagblaðinu Volkskrant að þannig hafi AVID ekki aðeins getað séð hvað tölvuþrjótanir væru að gera heldur hver væri að því. Hollenska leyniþjónustan gerði þeirri bandarísku viðvart árið 2015 þegar þeir urðu varir við þjófnaðinn á tölvupóstinum og fleiri skjölum úr tölvum Demókrataflokksins.

Fram kemur í fréttinni að það hafi tekið bandarísku leyniþjónustuna mánuði að átta sig á mikilvægi þessara upplýsinga. Hópurinn Cozy Bear hefur verið sakaður um afskipti af forsetakosningunum í þágu Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, en Trump hefur ítrekað þvertekið fyrir tengsl við ráðamenn í Rússlandi í kosningabaráttunni. 

Rannsókn stendur yfir í Bandaríkjunum á meintum tengslum forsetaframboðs Trumps og stjórnvalda í Rússlandi undir forystu Roberts Mueller, fyrrverandi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI. Einnig hefur málið verið til skoðunar hjá rannsóknarnefndum á vegum Bandaríkjaþings. Þykir hringurinn hafa þrengst smám saman um forsetann.

Talsmaður AVID vildi ekki tjá sig um fréttir hollenskra fjölmiðla á þeim forsendum að stofnunin tjáði sig aldrei um aðgerðir á vegum hennar. Hins vegar er rifjað upp í fréttinni að bandarískar leyniþjónustustofnanir hafi lýst því yfir áður að þær teldu allar líkur á því að rússnesk stjórnvöld væru á bak við tölvuárásina á Demókrataflokkinn.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP
mbl.is
Til sölu 16" álfelgur og snjódekk
Felgurnar eru original Mitsubishi 16", gatadeiling 108x5. Dekkin eru Firestone ...
fágætar bækur til sölu
til lsölu nokkrar fágætar bækur Sneglu-Halli eftir Símon Dalaskáld Guðmundar...
EIGUM ALLSKONAR STIGA Á LAGER
Sjá fjölmargar gerðir á: http://www.sogem-sa.com/stairs Sími 615 1750 Sjá einni...
Húsaviðgerðir - husco.is
https://www.husco.is/...