Taka við kolum frá N-Kóreu þrátt fyrir bann

Norðurkóreski bærinn Sinuiju. Norður-Kórea flutti í þrígang flutt kol til …
Norðurkóreski bærinn Sinuiju. Norður-Kórea flutti í þrígang flutt kol til rússnsku hafnarborganna Nakhodka og Kholmsk eftir að bann við kolaflutningi var sett á. Mynd úr safni. AFP

Norður-Kórea flutti kol til Rússlands á síðasta ári þrátt fyrir viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna og kolin voru síðan að öllum líkindum áframsend til Suður-Kóreu og Japan að því er Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildamönnum innan þriggja evrópskra leyniþjónustustofnanna.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna bannaði útflutning á kolum frá Norður-Kóreu þann 5. ágúst á síðasta ári og er bannið við kolaútflutningi meðal þeirra viðskiptaþvingana sem hafa verið settar á ríkið til að gera því erfiðara um vik að fjármagna kjarnorkuáætlun sína. Áður hafði þeim ríkjum sem tóku við kolum frá Norður-Kóreu verið gert að tilkynna það mánaðarlega.

Reuters segir Norður-Kóreu engu að síður hafa í þrígang flutt kol til rússnesku hafnarborganna Nakhodka og Kholmsk. Þar hafi kolin verið affermd og síðan sett um borð í skip sem sigldu með þau til Suður-Kóreu og Rússlands.

Aðrir heimildamenn fréttastofunnar staðfesta að að minnsta kosti sumar sendinganna hafi komið á land í Japan og Suður-Kóreu í október á síðasta ári. Þá staðfestir heimildamaður innan bandaríku leyniþjónustunnar að kolaviðskipti séu enn í gangi milli Norðurkóreumanna og Rússa.

Segjast ekki kaupa kol frá Norður-Kóreu

„Nakhodka höfnin í Rússlandi er að verða umfermishöfn fyrir norðurkóresk kol,“ sagði einn evrópsku öryggissérfræðinganna sem Reuters ræddi við.

Rússar tilkynntu Sameinuðu þjóðunum hins vegar í byrjun nóvember að ráðamenn þar í landi hlýddu nú viðskiptabanninu. „Rússland kaupir ekki kol frá Norður-Kóreu, né heldur er það affermingarhöfn fyrir önnur ríki,“ hafði rússneska Interfax fréttastofan eftir ónefndum heimildamanni í rússneska sendiráðinu í Norður-Kóreu í dag.

Rússar höfðu raunar áður en kolabannið tók gildi ekki tilkynnt um nein kolaviðskipti við Norður-Kóreu frá því 2016 er slík krafa var gerð.

Lögfræðingar sem hafa sérhæft sig í viðskiptaþvingunum, segja að svo virðist sem brotið sé gegn viðskiptabanni Sameinuðu þjóðanna.

Reuters segir fréttastofuna vissulega ekki hafa getað sannreynt sjálfa að kolin sem affermd voru í rússnesku höfnunum séu þau sömu og svo voru send frá sömu höfnum til Suður-Kóreu og Japan, né heldur liggi fyrir hvort að eigenda skipanna sem sigldu áfram með kolin hafi verið kunnugt um uppruna þeirra.

Bandaríska fjármálaráðuneytið hóf hins vegar á miðvikudag að beita eiganda eins skipanna, UAL Ji Bong 6, refsiaðgerðum fyrir að hafa flutt norðurkóresk kol til Kholmsk þann 5. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert