Aðskilnaðarsinnar blanda sér í átökin

Aðskilnaðarsinnar á götum Aden um helgina.
Aðskilnaðarsinnar á götum Aden um helgina. AFP

Hernaðarbandalag sem Sádi-Arabar leiða í stríðinu í Jemen hvetja stríðandi fylkingar í hafnarborginni Aden til að setjast að samningaborðinu. Hvetur bandalagið ríkisstjórn landsins til að hlusta á kröfur aðskilnaðarsinna. Talsmaður bandalagsins, Turki al-Maliki, segir uppreisnarmennina einnig hvatta til að „sýna stillingu“ og hefja viðræður við „lögmæt stjórnvöld“ landsins.

„Við hvetjum lögmæt stjórnvöld til að skoða kröfur hinnar pólitísku og félagslegu hreyfingar,“ sagði Maliki og vísaði þar til aðskilnaðarsinnanna.

Átök brutust út við stjórnarbyggingar í hafnarborginni Aden í dag, annan daginn í röð. Um völd í borginni takast nú hópar sem eitt sinn voru bandamenn í stríðinu gegn uppreisnarmönnum Húta. Um er að ræða hóp aðskilnaðarsinna, sem tengsl hafa við stjórnvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, og heri sem styðja forseta Jemen, Abd-Rabbu Mansour Hadi en hann er nú í útlegð í Sádi-Arabíu.

Enn færast því víglínur stríðsins til en í desember komu brestir í bandalag Húta og stuðningsmanna fyrrverandi forseta landsins. 

Í frétt Reuters um ástandið í Aden er haft eftir sjónarvottum að skriðdreka hafi verið ekið um stjórnarhverfi borgarinnar og úr honum skotið. 

Aðskilnaðarsinnarnir stofnuðu með sér bandalag í lok síðasta árs en þeir reyna nú að blása glæðum í þá kröfu að stofnað verði sjálfstætt ríki Suður-Jemen á ný. 

Í frétt AFP-fréttastofunnar kemur fram að í það minnsta níu hafi fallið í átökunum í dag. Þar er talað um tilraun til valdaráns af hálfu aðskilnaðarsinna í borginni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert