Drápu 33 íbúa á einum sólarhring

Sýrlensk börn sem eru á vergangi í eigin landi eftir …
Sýrlensk börn sem eru á vergangi í eigin landi eftir að hafa neyðst til þess að flýja heimili sín í Idlib. AFP

Sýrlenski stjórnarherinn hefur drepið 33 almenna borgara í loftárásum í Idlib héraði undanfarna 24 klukkustundir. Í dag voru 16 drepnir, þar af 11 sem voru staddir á grænmetismarkaði í bænum Saraqeb, samkvæmt upplýsingum frá mannúðarsamtökunum Syrian Observatory for Human Rights.

Sautján voru drepnir í loftárásum á svæði sem eru undir stjórn Hayat Tahrir al-Sham (HTS), en samtökin eru stjórn fyrrverandi liðsmanna al-Qaeda í Sýrlandi.

Að sögn yfirmanns Obervatory í Bretlandi, Rami Abdul Rahman, hafði verið fremur rólegt yfir héraðinu undanfarna daga vegna slæms veður en um leið og birti til hóf stjórnarherinn látlausar loftárásir. 

Hart hefur verið barist um Idlib undanfarnar vikur og nýtur stjórnarherinn stuðnings rússneska hersins við loftárásir á héraðið.

Að sögn blaðamanns AFP var skelfilegt um að litast á grænmetismarkaðnum í Saraqeb eftir árásina þar sem blóðpollar blöstu við allstaðar. 

Yfir 340 þúsund Sýrlendingar hafa verið drepnir frá því stríðið braust þar út fyrir tæpum sjö árum síðan. Það svarar til nánast allra Íslendinga. Margar milljónir hafa flúið heimili sín og eru flestir þeirra á vergangi í eigin landi á meðan milljónir hafa náð að flýja til annarra landa.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert