Óttast dauðadóm í Írak

AFP

Tvær tæplega þrítugar franskar konur eiga yfir höfði sér dauðarefsingu í Írak fyrir tengsl sín við vígasamtökin Ríki íslams. Konurnar eiga báðar smábörn sem eru fædd í Írak og hafa verjendur þeirra leitað til forseta Frakklands, Emmanuel Macron, og beðið hann um aðstoð.

Melina B. sem er 27 ára gömul og kemur frá Seine-et-Marne, austur af París og Djamila B sem er 28 ára gömul og kemur frá borginni Lille í Norður-Frakklandi. Þær eru báðar í fangelsi í Bagdad. Börnin þeirra eru með þeim í fangelsinu en Melina á einnig þrjú eldri börn sem hafa verið send til Frakklands, samkvæmt frétt Le Monde.

Ekki þykir ólíklegt að konurnar verði dæmdar til dauða líkt og þýska konan Lamia K sem var dæmd til dauða 18. janúar fyrir tengsl sín við Ríki íslams. Auk hennar er dóttir hennar, Nadja, og tvær aðrar þýskar konur í fangelsi í Írak vegna tengsla við Ríki íslams, Linda W og Fatima M. en ekki er búið að kveða upp dóma yfir þeim, segir í frétt Aftenposten sem einnig vísar í frétt Le Monde. 

Af þeim 900 sem fóru frá Þýskalandi til þess að berjast með Ríki íslams eru um 200 konur. 

Verjendur frönsku kvennanna, William Bourdon og Martin Pradel telja að engan tíma megi missa ef koma á í veg fyrir að konurnar verði dæmdar til dauða líkt og Lamia K.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert