Morðingi tekinn af lífi í Texas

William Rayford var tekinn af lífi í nótt.
William Rayford var tekinn af lífi í nótt. AFP

Bandaríkjamaður á sjötugsaldri var tekinn af lífi í Texas í nótt fyrir að hafa myrt unnustu sína á hrottalegan hátt. Þegar hann framdi morðið árið 1999 var hann á skilorði vegna dóms sem hann hlaut fyrir að myrða eiginkonu sína.

Ekki var fallist á að fresta aftöku William Rayford í gær en aftökunni var frestað um nokkrar klukkustundir af áfrýjunardómstól. Rayford var tekinn af lífi með banvænni sprautu og lýstur látinn klukkan 20:48 að staðartíma, klukkan 02:48 að íslenskum tíma.

Rayford, sem var 64 ára gamall, var dæmdur fyrir morðið á unnustu sinni Carol Lynn Thomas Hall en þau höfðu rifist harkalega skömmu áður. Rayford var á skilorði eftir að hafa afplánað átta ár af 23 fangelsisdómi fyrir að hafa myrt eiginkonu sína, Gail Ann Rayford. 

Lokaorð hans í gær voru beiðni um fyrirgefningu af hálfu fjölskyldu seinna fórnarlambs hans, að því er fram kemur í tilkynningu frá fangelsismálayfirvöldum í Texas.

„Gerið það fyrir mig að finna fyrirgefningunni stað í hjarta ykkar,“ sagði Rayford.  Hann iðrist gjörða sinna og að hann hafi beðið drottinn um fyrirgefningu.

Morðin sem Rayford framdi voru mjög hrottaleg og í bæði skiptin framdi hann morðin fyrir framan börn þeirra. Hann barði þær, kyrkti og stakk.

Sonur Hall var 11 ára gamall og réðst Rayford einnig á hann, barði og stakk, er drengurinn reyndi að stöðva árásina á móður sína. Drengurinn slapp naumlega á lífi undan ódæðismanninum og var helsta vitni saksóknara í málinu gegn Rayford á sínum tíma. 

Verjendur Rayford reyndu að fá hæstarétt Bandaríkjanna til að koma í veg fyrir aftökuna á grundvelli þess að Rayford væri svartur og hann hefði ekki fengið ófullnægjandi vörn á sínum tíma. Jafnframt væri hætta á að dómurinn yfir honum byggði á kynþáttahatri í hans garð.

Í eitt skipti þegar reynt var að koma í veg fyrir aftökuna lögðu verjendur Rayford fram niðurstöður prófana sem sýndu fram á að hann hefði þjáðst áratugum saman af heilaskemmdum vegna blýeitrunar frá byssukúlum og brotum úr byssukúlum í líkama hans sem og af menguðu vatni. Dómarar höfnuðu öllum beiðnum verjendanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert