Puigdemont segir Madrid ekki hafa sigrað

Aðskilnaðarsinnar bera grímur með andliti Carles Puigdemont í mótmælagöngu í …
Aðskilnaðarsinnar bera grímur með andliti Carles Puigdemont í mótmælagöngu í Barcelona. AFP

Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti heimastjórnar Katalóníu, neitar því alfarið að hann sé búinn að gefa upp á bátinn að leiða sjálfstæða Katalóníu. Spænsk sjónvarpsstöð birti í gær sms-skilaðboð sem Puigdemont sendi. BBC segir Puigdemont hafa viðurkennt að efi hafi læðst að honum eitt augnablik, en að hann hafi síðan verið þess fullviss að sjálfstæðisbaráttan ætti að halda áfram.

„Þetta er búið“ og „Madrid hefur sigrað“ kom fram í sms skilaboðunum sem sjónvarpsstöðin Telecinco birti.

Puigdemont hefur verið í útlegð í Belgíu frá því hann lýsti yfir sjálfstæði Katalóníu í október í fyrra í kjölfar umdeildra kosninga sem spænsk stjórnvöld úrskurðuðu ólöglegar.

Puigdemont átti að taka þátt í viðburði í belgíska bænum Leuven á þriðjudag en forfallaðist og aðstoðarmaður hans Toni Comín mætti í hans stað. Myndavélarnar bak við hann námu skilaboð sem Puigdemont sendi honum.

„Við erum að horfa upp á síðustu daga lýðveldisins Katalóníu,“ stóð í einum þeirra. „Áætlun Moncloa [opinbers bústaðar forsætisráherra Spánar] hefur sigrað.“

Puigdemont bætti svo við í þriðju skilaboðunum. „Ætli það sé ekki ljóst að þessu er lokið. Okkur hefur verið fórnað af okkar eigin fólki, eða að minnsta kosti hefur mér verið fórnað.“

Puigdemont sakar nú Telecinco um að rjúfa friðhelgi einkalífs síns og að hann sé enn forseti heimastjórnarinnar. „Ég er líka mennskur og það koma stundir þar sem ég fyllist efasemdum,“ skrifaði hann á Twitter.

„Ég er líka forseti og mun ekki segja af mér í virðingar- og þakklætisskyni, sem og af skyldurækni við borgarana og landið. Við höldum áfram!“

Sms-skilaboðin skrifaði Puigdemont eftir að talsmaður annars katalónsks sjálfstæðissinna flokks sagði að mögulega þyrfti að fórna Puigdemont.

„Móðganirnar, lygarnar og rógurinn sem ég hef sætt fyrir þennan sameiginlega málstað, særir mig djúpt,“ sagði Puigdemont sem verður handtekinn ef hann snýr aftur til Spánar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert