Vita um 265 fórnarlömb Nassar

Fjöldi kvenna sem talið er að hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi Larry Nassar, fyrrverandi lækni bandaríska landsliðsins í fimleikum, telur nú 265 konur. BBC greinir frá þessu og vísar í orð dómara í Michigan.

Þriðju og síðustu réttarhöld yfir Nassar fara fram í vikunni og búist er við að minnst 65 þolendur hans muni bera vitni gegn honum. Í síðustu viku var Nassar dæmd­ur í 40 til 175 ára fang­elsi fyr­ir að hafa mis­notað tugi fim­leika­kvenna kyn­ferðis­lega. Þá afplánar hann einnig 60 ára dóm fyrir vörslu á barnaníðsefni.

Frétt mbl.is: Dæmdur í 40 til 175 ára fangelsi

Réttarhöldin í þessari viku snúa að brotum sem Nassar framdi í bakherbergi í Twistar fimleikafélaginu í Dimondale í Michigan. Í nóvember í fyrra játaði hann að hafa brotið gegn stúlkum sem sóttu læknisþjónustu hjá honum. Að minnsta kosti ein stúlknanna var yngri en 13 ára þegar brotin áttu sér stað og tvær voru 15 og 16 ára.

„Við vitum um yfir 265 fórnarlömb og ótal fórnarlömb í ríkinu, landinu og um heim allan,“ sagði Janice Cunningham, dómari við dómstólinn í Michigan í dag.

„Larry Nassar er illur“

Fyrsta fórnarlambið sem bar vitni í réttarhöldunum í dag var Jessica Thomashow, 17 ára, en hún var níu ára gömul þegar Nassar misnotaði hana í fyrsta skipti. „Larry Nassar er illur,“ sagði hún. „Larry Nassar er glæpamaður af verstu sort.“

Búist er við að 25-40 ára bætist ofan á þá refsingu sem Nassar hefur verið dæmdur til nú þegar. Réttarhöldin munu taka þrjá daga.

Réttarhöld yfir Larry Nassar, fyrrverandi lækni bandaríska landsliðsins í fimleikum, …
Réttarhöld yfir Larry Nassar, fyrrverandi lækni bandaríska landsliðsins í fimleikum, halda áfram í vikunni. AFP
Jessica Thomashow, ein af 265 fórnarlömbum Nassar, sem vitað er …
Jessica Thomashow, ein af 265 fórnarlömbum Nassar, sem vitað er um. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert