5 skotnir í átökum hælisleitenda í Calais

Gerard Collomb, innanríkisráðherra Frakklands, ræðir hér við franska lögreglumenn við …
Gerard Collomb, innanríkisráðherra Frakklands, ræðir hér við franska lögreglumenn við komuna til Calais í nótt. Spenna milli hælisleitenda sem þar dvelja enn þykir fara vaxandi. AFP

Fimm hælisleitendur hið minnsta voru skotnir í átökum sem kom til milli afganskra og erítreskra hælisleitenda í hafnarborginni Calais í Frakklandi.

AFP-fréttastofan segir fjóra unga Erítreumenn á aldrinum 16-18 ára hafa verið flutta á sjúkrahús og að ástand þeirra sé alvarlegt. Farið var með fimmta manninn á sjúkrahús í borginni Lille vegna alvarleika sára hans.

Að minnsta kosti 13 til viðbótar særðust í átökunum þar sem deiluaðilar notuðu m.a. járnstengur til að berja hver á öðrum að því er BBC hefur eftir skrifstofu saksóknara.

Gérard Collomb, innanríkisráðherra Frakklands, kom til Calais í nótt vegna málsins og sagði hann átökin hafa verið óvenjuhörð. Einn hinna særðu er sagður hafa fengið skot í hálsinn.

„Ofbeldisaðgerðirnar hafa farið stigvaxandi og ástandið er orðið óþolandi fyrir bæði íbúa Calais og hælisleitendur,“ sagði Collomb.

Upphaflega kom til átaka í gærkvöldi í biðröð eftir matargjöfum, en um 100 Erítreubúar og 30 Afganar eru sagðir hafa tekið þátt í átökunum. Síðar um kvöldið kom síðan til ryskinga á ný á iðnaðarsvæði í um 5 km fjarlægð.

„Lögregla skarst í leikinn til að verja afgönsku hælisleitendurna sem stóðu þar andspænis 150-200 erítreskum hælisleitendum,“ hefur BBC eftir starfsmanni héraðsstjóra embættisins.

Eru þetta verstu átök sem komið hefur til milli hælisleitenda í Calais um nokkurra mánaða skeið og þykir notkun skotvopna merki um aukna spennu.

Hundruð hælisleitenda hafast enn við í nágrenni Calais í von um að komast yfir til Bretlands, þó að Jungle-flóttamannabúðirnar hafi verið jafnaðar við jörðu í lok árs 2016. Telja góðgerðasamtök á svæðinu um 800 hælisleitendur hafast þar enn við, en frönsk yfirvöld telja töluna 550-600 vera nær lagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert