Segir Weinstein hafa ráðist á sig

Leikkonan Uma Thurman.
Leikkonan Uma Thurman. AFP

Bandaríska kvikmyndaleikkonan Uma Thurman segir kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein hafa ráðist á sig og hótað því að gera feril hennar að engu.

Thurman bætist þar með í hóp tuga kvenna í kvikmyndaborginni Hollywood sem hafa sakað Weinstein um kynferðislegt ofbeldi. Þar á meðal eru heimsþekktar leikkonur eins og Ashley Judd, Gwyneth Paltrow, Kate Beckinsale og Salma Hayek.

Thurman segir í bandaríska dagblaðinu New York Times í dag frá tveimur atvikum sem áttu sér stað í London, höfuðborg Bretlands, eftir að kvikmyndin Pulp Fiction var frumsýnd árið 1994. Einnig frá atviki sem átti sér stað í París, höfuðborg Frakklands.

Leikkonan segir að Weinstein hafi ráðist á sig í svítu sem hann hafði leigt á Savoy-hótelinu í London. Weinstein hafi hrint sér niður og reynt að leggjast ofan á hana og afklæðast. Hann hafi hins vegar ekki ekki reynt af öllum kröftum og hún hafi gert allt til þess að koma í veg fyrir að hún yrði neydd til að gera eitthvað sem hún vildi ekki gera.

Fram kemur í yfirlýsingu frá talsmanni Weinsteins að kvikmyndaframleiðandinn kannist við að hafa reynt við Thurman í París eftir að hafa misskilið hana. Hann hafi í kjölfarið beðist strax afsökunar. Thurman segist hafa farið til Weinsteins nokkru síðar til þess að láta hann heyra það og tekið vinkonu með sér en aðstoðarmaður hans hafi neytt hana til að hitta hann einan.

Thurman segist hafa sagt Weinstein að ef hann kæmi svona fram við aðra eins og hann hefði komið fram við hana yrði ferill hans að engu, orðspor hans og fjölskylda. Vinkona Thurman, Ilona Herman, segir hana hafa komið út af fundinum skjálfandi og náföla og sagt að Weinstein hafi hótað að gera feril hennar að engu.

Weinstein neitar því að hafa gert það.

Harvey Weinstein.
Harvey Weinstein. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert