Aðstoðarhundur hermannsins drepinn

Gunner gætti öryggis hermannsins. Nú er hann allur.
Gunner gætti öryggis hermannsins. Nú er hann allur. Facebook

250 þúsund króna fundarlaun hafa verið boðin þeim sem getur veitt upplýsingar sem gætu leitt til handtöku vegna dráps á hundi fatlaðs hermanns í Richwood í Kentucky.

Hundurinn Gunner var hermanninum til aðstoðar, svokallaður þjónustuhundur. Hann var skotinn í höfuðið og drepinn og hræi hans svo fleygt við lestarteina í Boone-sýslu.

Gunner hafði stórt hlutverk í að tryggja daglegt öryggi hermannsins Bryans Vallandingham. Hann lét t.d. aðra í fjölskyldunni vita er Vallandingham fékk flogakast. Vallandingham var í fjórtán ár í bandaríska hernum.

Fjölskyldan telur að hundinum hafi verið stolið úr garðinum við húsið fyrir um tveimur vikum. Hann fannst svo dauður fyrir um viku. Eftir að hundurinn hvarf fóru fjölskyldunni að berast skilaboð frá manneskju sem sagðist vita hvar hundurinn væri niðurkominn. Að því er systir hermannsins segir var fjölskyldan beðin um að skilja eftir peninga á ákveðnum stað vildi hún fá hundinn aftur í sínar hendur. Þessari kröfu var hafnað og rannsakar nú lögreglan hvort um fjárkúgunarmál sé að ræða, að því er fram kemur í frétt Cincinnati.com.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert