Boða breytingar í flóttamannamálum

Mette Frederiksen segir fleiri flóttamenn hafa komið til Evrópu en …
Mette Frederiksen segir fleiri flóttamenn hafa komið til Evrópu en hægt sé að aðstoða.

Sósíaldemókratar í Danmörku boða breytingar í flóttamanna- og útlendingamálum með nýrri tillögu. Flokkurinn vill að ekki verði lengur hægt að sækja um vernd í Danmörku heldur aðeins í gegnum danskar móttökumiðstöðvar í þriðja ríki.

Þar eru ríki í Norður-Afríku nefnd sem dæmi um það sem flokkurinn telur ákjósanlega staðsetningu fyrir slíka miðstöð og þar muni fólkið svo bíða úrlausn sinna mála. Flokkurinn kallar tillögu sína „réttvísa og raunhæfa“. 

Mette Fredriksen, formaður flokksins, segir stöðuna vera þá að fleiri flóttamenn hafi komið til Evrópu en hægt sé að aðstoða. 

Á móti vill flokkurinn taka á móti fleiri kvótaflóttamönnum á ári í gegnum Sameinuðu þjóðirnar. „Það verður í það minnsta möguleiki á því ef ekki koma hingað hælisleitendur á eigin vegum, þá erum við í þeirri stöðu sem ég vil helst vera, að við ákveðum sjálf hversu margir koma til Danmerkur,“ segir Fredriksen.

Danska ríkisútvarpið DR sagði frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert