Náðu ekki andanum

Ítrekaðar árásir hafa verið gerðar í Idlib-héraði í Sýrlandi síðustu …
Ítrekaðar árásir hafa verið gerðar í Idlib-héraði í Sýrlandi síðustu daga og hafa tugþúsundir síðustu vikur reynt að leggja á flótta, m.a. í Tyrklands. AFP

Fimm almennir borgarar fengu læknisaðstoð í bænum Saraqeb í Sýrlandi í dag vegna öndunarerfiðleika í kjölfar loftárása stjórnarhersins.

Eftirlitssamtökin Syrian Observatory for Human Rights segja að „viðbjóðsleg lykt“ hafi fundist eftir að þyrlur stjórnarhersins gerðu árásir á bæinn sem er í Idlib-héraði. Segja samtökin að fimm borgarar hafi átt erfitt með andardrátt í kjölfarið.

Samtökin segja að íbúar og heilbrigðisstarfsfólk segi að eiturgas hafi verið notað í árásinni.

Sex féllu í loftárásum stjórnarhersins í bænum Maarat al-Numan sem einnig er í Idlib-héraði en þar hefur herinn gert áhlaup síðustu daga. Aðalsjúkrahús bæjarins skemmdist í árásinni. Svo illa er sjúkrahúsið skemmt að það er ekki lengur hægt að veita læknisaðstoð.

Sakaðir í notkun efnavopna

Í síðustu viku sökuðu Bandaríkjamenn Sýrlandsstjórn um að nota efnavopn á andstæðinga sína í orrustum í nágrenni höfuðborgarinnar Damaskus. Stjórnin segir slíkt lygi.

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Jimm Mattis, sagði við blaðamenn á föstudag að ríkisstjórn lands síns hefði áhyggjur af því að sarín-gasi hefði verið beitt nýverið í Sýrlandi og hafði það eftir starfsmönnum hjálparsamtaka sem þar starfa. Matis viðurkenndi að engar aðrar sannanir væru fyrir beitingu eiturgass en frásagnir af vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert