Níddist á 40 stúlkum á einu ári

Larry Nassar hefur verið dæmdur í margra áratuga fangelsi fyrir …
Larry Nassar hefur verið dæmdur í margra áratuga fangelsi fyrir brot sín. AFP

Á því ári sem leið, frá því að alríkislögreglan í Bandaríkjunum hóf fyrst rannsókn á ásökunum á hendur lækninum Lawrence G. Nassar um að hann hefði misnotað þrjár fimleikastúlkur kynferðislega, hélt hann uppteknum hætti og níddist á 40 stúlkum til viðbótar. Rannsókninni var ýtt fram og til baka milli skrifstofa FBI í þremur borgum á meðan verið var að safna gögnum gegn Nassar. Meðal gagna sem safnað var voru myndbönd af óvenjulegum aðferðum læknisins að snerta viðkvæm svæði líkama fimleikastúlknanna á meðan þær lágu á grúfu á bekknum hjá honum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri frétt New York Times um brot læknisins. Hann hefur nú verið dæmdur til áratuga fangelsisvistar fyrir að hafa níðst á tugum stúlkna í áratugi.

Fimleikakonan Jordyn Wieber á Ólympíuleikunum í London árið 2012. Hún …
Fimleikakonan Jordyn Wieber á Ólympíuleikunum í London árið 2012. Hún er eitt af fjölmörgum fórnarlömbum Larrys Nassar. AFP

En á meðan þessi rannsóknarvinna var í gangi hélt Nassar óáreittur uppteknum hætti. New York Times hefur heimildir fyrir því að hann hafi frá því að mál hans kom inn á borð FBI í júlí árið 2015 og þar til í september 2016 níðst á fjörutíu stúlkum og konum. Í þeim hópi eru nokkur af yngstu fórnarlömbum Nassars sem talinn er hafa níðst á að minnsta kosti 265 stúlkum og konum á starfsferli sínum. 

Stúlkurnar þrjár sem hin upphaflega rannsókn hafði beinst að voru afburðaíþróttamenn. Tvær þeirra voru gullverðlaunahafar á Ólympíuleikunum. Næstum því ár leið frá því að málið kom til FBI þar til rætt var við tvær þeirra.

„Lögreglan eða FBI hringdi aldrei í mig á þessum tíma,“ segir móðir einnar stúlkunnar í samtali við New York Times. „Ekki einu sinni. Ekki eitt einasta. Ekkert.“

Larry Nassar var læknir fimleikasambandsins í Bandaríkjunum og hafði m.a. …
Larry Nassar var læknir fimleikasambandsins í Bandaríkjunum og hafði m.a. það verkefni að sinna fremstu fimleikakonum heims. AFP

FBI vill ekki svara spurningum um hraða og eðli rannsóknarinnar. Í tilkynningu sem stofnunin sendi New York Times segir að kynferðisglæpir gegn börnum séu sérstaklega hræðilegir glæpir og að öryggi og velferð barnanna sé helsta forgangsmál FBI. Skýlir stofnunin sér m.a. á bak við það að málið hafi teygt anga sína til margra ríkja Bandaríkjanna sem geti skýrt þann tíma sem rannsóknin tók.

FBI vill heldur ekki tjá sig um það sem starfsmenn bandaríska fimleikasambandsins hafa sagt um að stofnunin hafi bannað þeim að ræða málið eftir að upp um brot Nassars komst og kæra var lögð fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert