Þriðji lífstíðardómurinn felldur yfir Nassar

Þriðji dómurinn yfir Larry Nassar, fyrrverandi lækni bandaríska fimleikalandsliðsins, féll í dag og var Nassar að þessu sinni dæmdur í 40-125 ára fangelsi fyrir að misþyrma ungum fimleikastúlkum.

Nassar hefur þegar verið úrskurðaður í tvígang í lífstíðarfangelsi fyrir kynferðislega misnotkun á keppendum í bandaríska fimleikalandsliðinu og keppendum Michigan State University.

„Það er ómögulegt að tjá hverri einni og einustu hversu mikið ég sé eftir þessu,“ sagði Nassar áður en dómurinn féll. Cunningham dómari sagði Nassar hins vegar áður hafa gefið til kynna að hann hefði ekki gert neitt rangt af sér.

BBC segir rúmlega 265 konur nú hafa ásakað Nassar um kynferðislega áreitni og misnotkun og hafa rúmlega 200 konur í allt tjáð sig í vitnastúkunni um ofbeldið sem þær sættu af hans hálfu.

Sagði Nassar, sem einnig fékk 60 ára dóm fyrir að hafa barnaklám í vörslu sinni, dómstólnum að vitnisburðir fórnarlambanna muni ekki víkja úr huga sér.

„Ég er ekki sannfærð um að þú raunverulega skiljir að það sem þú gerðir var rangt, og hversu eyðileggjandi áhrif það hafði á fórnarlömbin, fjölskyldur þeirra og vini,“ sagði dómarinn Janice Cunningham, við Nassar. „Það er augljóst að þú ert í afneitun. Þú nærð þessu ekki.“

Dómarinn ákvað í síðustu viku að ákæra ekki föður tveggja stúlkna sem Nassar misnotaði, en faðirinn réðst á lækninn í réttarsalnum eftir að hafa farið fram á að fá „fimm mínútur í læstu herbergi með þessum djöfli“.

Lögregla í Michigan bað í síðustu viku stúlku sem var eitt fórnarlamba Nassars afsökunar á að hafa hunsað kæru sem hún lagði fram gegn honum árið 2004.

Þá greindi New York Times frá því á laugardag að Nassar hafi misnotað 40 stúlkur hið minnsta á því 14 mánaða tímabili sem bandaríska alríkislögreglan FBI var með hann til rannsóknar.

Larry Nassar kemur ínn í dómsalinn í Eaton-sýslu til að …
Larry Nassar kemur ínn í dómsalinn í Eaton-sýslu til að hlýða á þriðja og síðasta dóminn yfir sér. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert