Bandaríkjamenn og Rússar tókust á í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna

Nikki Haley vill að öryggisráðið fordæmi notkun efnavopna í Sýrlandi.
Nikki Haley vill að öryggisráðið fordæmi notkun efnavopna í Sýrlandi. AFP

Bandaríkjamenn og Rússar tókust á í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag vegna þrýstings Bandaríkjanna á að fordæma notkun efnavopna í Sýrlandi. Margir hafa slasast á síðustu dögum í árásum, þar á meðal börn, og segja fórnarlömb og heilbrigðisstarfsfólk að eiturgas hafi verið notað. 

„Nú höfum við frásagnir af því að ríkisstjórn Assads hafi margsinnis notað klórgas á þegna sína á síðustu vikum, síðast í gær,“ sagði Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna. Þá lögðu Bandaríkin til að öryggisráðið sendi frá sér yfirlýsingu og fordæmi klórgasárás á bæinn Douma þar sem a.m.k. 20 óbreyttir borgarar særðust. 

Rússar svöruðu þessu með því að saka Bandaríkjamenn um heyja „áróðursstríð“ gegn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta og saka hann í því skyni ranglega um að nota efnavopn. 

Frá bráðabirgðaspítala í Douma eftir árásir 22. janúar. Stjórnarherinn er …
Frá bráðabirgðaspítala í Douma eftir árásir 22. janúar. Stjórnarherinn er sakaður um að hafa notað eiturgas í árásum sínum, meðal annars þann dag. AFP

Þjóðverjar hafa óskað eftir því að ítarleg rannsókn verði gerð vegna frásagna íbúa bæði í austurhluta Ghouta og Idlib-héraði, svæði sem bæði eru undir stjórn uppreisnarmanna. Bashar al-Assad hefur heitið því að ná öllu landsvæði til baka frá uppreisnarmönnum. 

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa fengið tilkynningar frá íbúum Douma, sem er í austurhluta Ghouta, um notkun klórgass í árásum á svæðinu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem efnavopn eru notuð þar en í ágúst 2013 voru a.m.k. 100 borgarar, þar af mörg börn, drepin í grimmilegri árás.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert