Fær blindrahest í stað blindrahunds

Digby er átta mánaða í dag, en verður orðinn tveggja ...
Digby er átta mánaða í dag, en verður orðinn tveggja ára er þjálfun hans lýkur og hann flytur til Patels. Skjáskot/Twitter

Blindur fréttamaður sem starfar hjá BBC verður fyrsti blindi maðurinn í Bretlandi til að fá blindrahest í stað blindrahunds. Fréttamaðurinn Mohammed Salim Patel er haldinn hundahræðslu og er nú verið að þjálfa smáhestinn Digby til að aðstoða hann.

Fjallað er um málið á vefnum Press Gazette, en Patel bloggar fyrir BBC sem „blindi fréttamaðurinn“.

Þeir Patel og Digby, sem er af kyni bandarískra smáhesta, komu fram í þætti á einni af svæðisstöðvum BBC. Sagðist Patel þá þegar hafa náð tengslum við hestinn þrátt fyrir að hafa aðeins hitt hann tvisvar.

„Ég hugsa með sjálfum mér, er þetta virkilega að fara að gerast? Og hvað mig varðar þá verður það að gera það. Ég veit hvaða aðstoð hjálpardýr geta veitt, en því miður get ég ekki notað hund.“

Þarf að ganga í blindrahundafélagið

Blindrahestar eru þegar notaðir í Bandaríkjunum, en hestar hafa ekki áður verið þjálfaðir til þessara starfa í Bretlandi. Þar af leiðandi þarf að skrá Digby hjá félagið blindrahunda áður en hann tekur til starfa sem blindrahestur.

Patel, byrjaði að tapa sjón sinni er hann var 15 ára gamall og er nú nærri því alveg blindur, segir Digby munu breyta lífi sínu.

„Eins og staðan er í dag þá þarf ég að reiða mig á aðra til að gera margt. Ég þarf að spyrja vini og fjölskyldumeðlimi hvort þeir séu lausir og geti farið með mér ef mig langar að gera eitthvað.

Reynist Digby vel er þetta bara spurning um að setja á hann beisli, ef hann er glaður, og svo förum við og gerum það sem mig langar til.“

Þegar er farið að þrýsta á að leiðsöguhestar fái að fara inn á veitingastaði og um borð í flugvélar. Fyrst þarf þó að sannfæra breska heilbrigðiseftirlitið um að Digby geti, íklæddur bleyju, farið inn á kaffihús og veitingastaði.

Eigandi Digby, Katy Smith, segir í samtali við BBC að hún sé bjartsýn á að Digby fái að sinna starfinu „ svo framarlega sem við getum sýnt fram á að engin heilbrigðishætta stafi af honum, þ.e. að hann klæðist „þrumubuxunum“ og þær virka,“ sagði Smith.

Digby er í dag átta mánaða gamall og verður þjálfun hans ekki að fullu lokið fyrr en hann verður orðinn tveggja ára, en þá standa vonir til að hann flytji inn í hesthús í garði Patels.

mbl.is