Handtökuskipun áfram í gildi

Julian Assange.
Julian Assange. AFP

Breskur dómari staðfesti handtökuskipun á hendur stofnanda WikiLeaks, Julian Assange, í gær. Assange hefur haldið til í sendiráði Ekvador frá árinu 2012 til þess að forðast handtöku. Sænsk yfirvöld höfðu gefið út handtökuskipun á hendur honum vegna kynferðisbrotamála þar í landi árið 2010.

Svíar felldu handtökuskipunina úr gildi í fyrra en breska lögreglan vill enn handtaka Assange fyrir að mæta ekki fyrir dóm á sínum tíma og brjóta þar gegn skilyrðum um lausn gegn tryggingu.

Dómarinn, Emma Arbuthnot, sagði þegar hún kvað upp úrskurð sinn í gær að hún væri ekki sannfærð um hvort falla ætti frá handtökuskipuninni en Assange hafi brotið gegn réttinum árið 2012. Hún ætlar aftur á móti að taka fyrir í næstu viku aðra beiðni frá lögmönnum Assange þar sem þeir óska eftir svari við því hvort handtökuskipunin falli undir almannahagsmuni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert