Mestu efnahagsþvinganirnar til þessa

Mike Pence ásamt Shinzo Abe í Tókýó, höfuðborg Japans.
Mike Pence ásamt Shinzo Abe í Tókýó, höfuðborg Japans. AFP

Bandarísk stjórnvöld ætla á næstunni að beita sínum „hörðustu og mestu“ efnahagsþvingunum til þessa gagnvart Norður-Kóreu.

Þetta sagði Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, eftir viðræður við Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, í Tókýó.

„Í dag tilkynni ég að Bandaríkin muni bráðum greina frá hörðustu og stórtækustu efnahagsþvingunum sínum gegn Norður-Kóreu,“ sagði Pence.

„Heimurinn skal fá að vita þetta: „Við munum halda áfram að auka þrýsting okkar þangað til Norður-Kórea tekur alvöruskref í átt að algjöru og óafturkræfu afvopnunarferli á kjarnavopnum.“

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gagnrýnt stefnu fyrri ríkisstjórna Bandaríkjanna gagnvart Norður-Kóreu. Einnig hefur hann sannfært alþjóðasamfélagið um að herða refsiaðgerðir sínar gegn landinu.

Mike Pence varaforseti, til vinstri, ásamt Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans.
Mike Pence varaforseti, til vinstri, ásamt Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. AFP

Fá ekki að „hertaka“ Vetrarólympíuleikana

Pence tjáði sig einnig um þátttöku Norður-Kóreu í Vetrarólympíuleikunum sem hefjast von bráðar í Suður-Kóreu.

Hann sagði að Bandaríkin ætli ekki ekki að leyfa Norður-Kóreu að „hertaka“ Vetrarólympíuleikana í Suður-Kóreu með áróðri.

„Við ætlum ekki að leyfa það að áróður frá Norður-Kóreu hertaki þau skilaboð og þær myndir sem koma frá Vetrarólympíuleikunum,“ sagði hann.

„Við ætlum ekki að leyfa Norður-Kóreu að fela á bak við fána Ólympíuleikanna þann sannleika að þeir hneppa sitt eigið fólk í ánauð og ógna öðrum ríkjum,“ sagði Pence.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert