Systir Kims Jong-un til S-Kóreu

Kim Jong-un ásamt systur sinni Kim Yo-jong.
Kim Jong-un ásamt systur sinni Kim Yo-jong. AFP

Systir leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un, mun heimsækja Suður-Kóreu í þessari viku vegna vetrarólympíuleikanna sem þar eru að hefjast.

Kim Yo-jong, sem er háttsett í norðurkóreska verkamannaflokknum, verður hluti af sendinefnd sem kemur til Suður-Kóreu á föstudaginn. Reiknað er með að hún verði viðstödd opnunarathöfn leikanna. 

Þetta verður í fyrsta sinn sem meðlimur úr fjölskyldu Kims heimsækir Suður-Kóreu.

„Það hefur mjög mikla þýðingu að meðlimur í fjölskyldu Kims fari suður í fyrsta sinn í sögunni,“ sagði Yang Moo-jin, prófessor við háskóla norðurkóreskra fræða í Seúl.

Líklegt er talið að Kim Yo-jong hitti Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, og afhendi honum persónulegt bréf frá bróður hennar, þar sem vonast er eftir vel heppnuðum ólympíuleikum og óskum um að sambandið á milli ríkjanna tveggja muni batna, bætti hann við.

„Þetta verður frumraun Kim Yo-jong á alþjóðlega sviðinu,“ sagði Yang. „Bróðir hennar er að leggja grunninn að því hún verði ein valdamesta manneskja Norður-Kóreu.“

Kim Yo-jong, sem er á þrítugsaldri, fékk stöðuhækkun í verkamannaflokknum í október síðastliðnum.

Hún hefur iðulega sést í för með bróður sínum í vettvangsferðum og á öðrum viðburðum og er sögð hafa átt þátt í áróðursherferð stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert