Saka Bandaríkin um „hryllilegt fjöldamorð“

AFP

Ríkisstjórn Sýrlands sakar Bandaríkin um „hryllilegt fjöldamorð“ með loftárásum á hersveitir hliðhollar Bashar al-Assad Sýrlandsforseta síðastliðna nótt. Um 100 manns létust í árásunum. Utanríkisráðuneyti Sýrlands hefur ritað Sameinuðu þjóðunum bréf þar sem þess er krafist að árásirnar verði fordæmdar. BBC greinir frá.

Bandaríkjamenn hafa borið fyrir sig sjálfvörn, sagt að þeir hafi verið að bregðast við árásum á herstöð Kúrda og Araba sem eru bandamenn Bandaríkjanna. Segja þeir að 500 bandamenn sýrlenska stjórnarhersins hafi gert tilraun til að herta svæði sem Kúrdar ráða yfir við Efrat-fljót.

Ríkisstjórn Sýrlands segir þessar síðustu árásir Bandaríkjamanna jaðra við stríðsglæp og glæp gegn mannkyninu. Stjórnin sakar Bandaríkin jafnframt um að styðja hryðjuverkasamtök.

Stjórnarherinn hefur hins vegar síðustu daga gert árásir á Austu-Ghouta og fjöldi óbreyttra borgara hefur látið lífið. Talsmenn hjálparsamtaka segja að minnsta kosti 36 óbreytta borgara hafa farist á árásum í dag, en talið að um 185 hafi farist í átökum í landinu frá því á mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert