Síðustu „Bítlarnir“ handteknir á Sýrlandi

„Jihadi John“ eða Mohammed Emwazi, var sá fjórmenninganna sem birtist …
„Jihadi John“ eða Mohammed Emwazi, var sá fjórmenninganna sem birtist í mörgum af ofbeldisfyllstu upptökum Ríkis íslams,. Þar sést hann hæðast að Vesturlöndum áður en hann afhöfðar fanga sína. EPA

Uppreisnarsveitir kúrda á Sýrlandi hafa handsamað tvo Breta, sem taldir eru tilheyra illræmdum hópi breskra vígamanna úr sveitum Ríkis íslams. BBC hefur þetta eftir bandarískum embættismönnum.

Þeir Alexanda Kotey og El Shafee Elsheikh voru tveir síðari meðlimir sellunnar sem enn voru lausir. Fjórmenningarnir sem skipuðu selluna komu allir frá London og fengu viðurnefnið „Bítlarnir“ vegna þess að þeir voru með breskan hreim.

Bandarísk yfirvöld segja fjórmenningana hafa skipað aftökusellu sem hafi hálshöggvið meira en 27 vestræna gísla og þá hafi þeir pyntað fjölda gísla til viðbótar.

Meintur leiðtogi hópsins Mohammed Emwazi, sem fékk viðurnefnið Jihadi John, var drepinn í loftárás í Sýrlandi árið 2015. Fjórði liðsmaðurinn, Aine Davis, situr nú í fangelsi í Tyrklandi vegna hryðjuverkaákæru sem hann fékk á síðasta ári.

Bandaríska utanríkisráðuneytið segir fjórmenningana m.a. hafa tekið af lífi bandarísku blaðamennina James Foley og Steven Sotloff, sem og bandaríska hjálparstarfsmanninn Peter Kassig.

Kotey er sagður hafa séð um að fá nýliða til liðs við Ríki íslams og þá er Elsheikh sagður hafa orð á sér fyrir vatnspyntingar, gerviaftökur og krossfestingar. Hann á einnig að hafa verið vörður hópsins.

Emwazi, sem fæddist í Kuwait, var grímuklæddi maðurinn sem birtist í mörgum af ofbeldisfyllstu upptökum Ríkis íslams. Þar sést hann hæðast að Vesturlöndum áður en hann afhöfðar fanga sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert