Ætti að loka þá inni og henda lyklunum

Úr myndbandi þar sem David Haines er afhöfðaður.
Úr myndbandi þar sem David Haines er afhöfðaður. AFP

Dóttir Skota, sem starfaði fyrir alþjóðleg hjálparsamtök í Mið-Austurlöndum og var tekinn af lífi árið 2014, vonast til þess að mennirnir sem myrtu föður hennar fái „hægan og kvalarfullan dauðdaga“.

Liðsmenn úr Ríki Íslams afhöfðuðu David Haines en þeir sögðu ástæðuna vera stuðning Bretlands við Banda­rík­in í stríðinu gegn Ríki Íslam.

Menn sem kallaðir voru „Bítlarnir“ tóku Haines af lífi. Tveir þeirra voru handsamaðir í dag en þeir fengu viðurnefnið vegna þess að þeir voru með breskan hreim. Þeir Al­ex­anda Kotey og El Shafee Els­heikh voru tveir síðari meðlim­ir sell­unn­ar sem enn voru laus­ir.

Bethany Haines, dóttir David, sagðist vilja horfa í augu mannanna ef réttað verður yfir þeim. Hún kvaðst í fyrstu hafa verið efins um sannleiksgildi fréttanna en áttaði sig svo á því að mennirnir hefðu verið handsamaðir.

„Ég var í miklu uppnámi og vissi ekki hvernig mér leið. Síðan áttaði ég mig á því að þetta gerðist og þeir geta ekki skaðað fleiri,“ sagði Bethany Haines í samtali við BBC.

Hún sagðist gera sér grein fyrir því að það væri ólíklegt að þeir myndu fá hægan og kvalarfullan dauðdaga. 

„Best væri ef þeir yrðu lokaðir inni og lyklunum hent. Það ætti aldrei að hleypa þeim út í samfélagið aftur vegna þess að þeir munu aftur fá fólk með sér í liði og gera eitthvað svipað og þeir hafa gert,“ sagði Bethany.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert