Schulz tekur ekki sæti í nýrri stjórn

Schulz tilkynnti það í dag að hann myndi ekki taka …
Schulz tilkynnti það í dag að hann myndi ekki taka sæti í ríkisstjórn Angelu Merkel. AFP

Martin Schulz, leiðtogi Jafnaðarmanna (SPD) í Þýskalandi, mun ekki sækjast eftir ráðherraembætti í nýrri samsteypustjórn með Kristilegum demókrötum. Hann tilkynnti þetta í dag.

„Hér með afsala ég mér sæti í ríkistjórn og vonast til að sú ákvörðun verði til þess að deilurnar hætti að snúast um einstaklinga,“ sagði Schulz í yfirlýsingu sinni, en fyrri áform hans um að taka embætti utanríkisráðherra í stjórn Merkel voru umdeild innan Jafnaðarmannaflokksins. „Ég set hagsmuni flokksins framar mínum persónulega metnaði,“ bætti hann við.

Stjórnarsáttmáli flokkanna var undiritaður á miðvikudag eftir margra vikna viðræður flokkanna, en viðræður um efni sáttmálans stóðu yfir í þrjá daga. Vonir eru bundnar við að nú sé fjögurra mánaða stjórnarkreppu í Þýsaklandi lokið, en það er þó enn ekki alveg víst.

Nú á eftir að leggja stjórnarsáttmalann fyrir fyr­ir 460 þúsund flokks­menn Jafnaðarmanna­flokks­ins til samþykkt­ar eða synj­un­ar en gert er ráð fyr­ir að niðurstaðan liggi fyr­ir eft­ir um þrjár vik­ur. Vitað er að vinstrisinnar innan flokksins hafa tekið höndum saman við ungliðahreyfingu flokksins í þeirri von að þeim megi takast að fella sáttmálann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert