Skelfing í vægðarlausum árásum

Fjölskylda í Jisreen í Austur-Ghouta hleypur undan sprengjuregni.
Fjölskylda í Jisreen í Austur-Ghouta hleypur undan sprengjuregni. AFP

Vægðarlausar árásir sýrlenska stjórnarhersins á þorp og bæi í Austur-Ghouta hafa orðið til þess að enn erfiðara hefur reynst en áður að koma þangað nauðþurftum til íbúanna sem hafa verið í herkví árum saman. Að minnsta kosti 220 almennir borgarar hafa fallið á svæðinu síðustu fjóra daga. Um 400 þúsund manns eru innlyksa á svæðinu. 

Mannúðarsamtökin CARE International segja að starfsmenn þeirra eigi erfitt með ferðalög vegna árásanna og komist því ekki til nauðstaddra. 

Bækistöð samtakanna í borginni Douma var eitt þeirra húsa sem varð fyrir árás. Starfsfólkið var að leita í neðanjarðarbyrgi til að finna skjól. 

TSærð stúlka fær aðhlynningu í bænum Hamouria í Austur-Ghouta.
TSærð stúlka fær aðhlynningu í bænum Hamouria í Austur-Ghouta. AFP

Talið er að yfir 4.000 fjölskyldur í Austur-Ghouta hafist við í kjöllurum og byrgjum, að sögn hjálparsamtakanna Save the Children.

Austur-Ghouta er rétt austur af höfuðborginni Damaskus. Á síðasta ári var samið um það milli uppreisnarmanna og stjórnarhersins að draga úr átökum til að komast hjá frekara blóðbaði.

Það hefur ekki gengið eftir og hefur stjórnarherinn sótt hart fram í héraðinu síðustu daga og vikur. Sömu sögu er að segja af Idlib-héraði sem í norðvestanverðu Sýrlandi.

Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt til fjögurra mánaða vopnahlé í mannúðarskyni á svæðinu svo að hægt verði að koma nauðþurftum til íbúanna og koma hinum særðu undir læknishendur. En í gær var ljóst að tillaga þar um naut ekki stuðnings fulltrúa Rússa í öryggisráðinu sem sagði að tillagan væri „óraunsæ“.

Joelle Bassoul, talsmaður CARE í Sýrlandi, segir að afleiðingarnar verði hroðalegar fyrir almenna borgara. „Ef það verður ekki vopnahlé, ef ekkert verður gert, þá getum við ekki ímyndað okkur þann harmleik sem mun fylgja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert