Tveir létust er tyrknesk herþyrla hrapaði

Erdogan segir að Kúrdar muni fá að borga fyrir hrap …
Erdogan segir að Kúrdar muni fá að borga fyrir hrap herþyrlunnar. AFP

Tyrknesk herþyrla hrapaði til jarðar við suðurlandamæri Tyrklands fyrr í dag, en þyrlan hafði tekið þátt í sókn tyrkneskra hersveita gegn Kúrdum í norðurhluta Sýrlands. Tveir létust.

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, sagði að þyrlan hefði verið „skotin niður“ og hafa tyrkneskir fjölmiðlar greint frá því að atvikið hafi átt sér stað í Hatay-héraði.

„Svona hlutir munu gerast, við erum í stríði,“ er haft eftir Erdogan á vef Al-Jazeera. Forsetinn bætti því við að Kúrdar muni „fá að borga fyrir þetta“.

Tyrkneski forsætisráðherrann, Binali Yildirim, kom fram í sjónvarpi áðan og sagðist ekki enn hafa séð nein gögn sem sýni fram á að þyrlan hafi hrapað vegna utanaðkomandi árásar.

Hann staðfesti hins vegar að tveir hefðu látist er þyrlan hrapaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert