New York stefnir Weinstein and Co

AFP

New York ríki hefur höfðað mál á hendur Harvey Weinstein, bróður hans og fyrirtæki þeirra Weinstein and Co fyrir svívirðileg brot á borgaralegum réttindum og mannréttindum starfsfólks, sem og brot á viðskiptalögum. AFP-fréttastofan greinir frá.

Málshöfðunin kemur aðeins fjórum mánuðum eftir að ferli kvikmyndaframleiðandans lauk með skömm í kjölfar þess að yfir 100 konur ásökuðu hann um kynferðisofbeldi og #metoo-byltingin hófst.

Eric Schneiderman, ríkislögmaður New York ríkis, sagði málið verða tekið fyrir í hæstarétti, en í gögnum kæmu fram nýjar ásakanir um að fyrirtækið hefði ítrekað brotið á starfsfólki með siðlausum hætti.

Stjórn fyrirtækisins hefði brugðist skyldum sínum að vernda starfsfólk sitt og hefði ekki tekið í taumana vegna hegðunar Weinsteins þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir.

„Fram kemur í stefnu okkar að Weinstein and Co hafi ítrekað brotið lög New York-ríkis með því að vernda starfsfólk sitt ekki fyrir kynferðislegri áreitni, kúgun og mismunun,“ segir Schneiderman.

Weinstein mun nú vera í meðferð við kynlífsfíkn en hann er til rannsóknar bæði hjá bresku og bandarísku lögreglunni vegna áskana um kynferðisofbeldi. Hann hefur þó ekki verið ákærður fyrir nein hinna meintu brota ennþá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert