Verja sig gegn öllum árásum

Rannsakendur að störfum við brak herþotunnar sem var skotin niður …
Rannsakendur að störfum við brak herþotunnar sem var skotin niður af sýrlenska hernum eftir loftárásir Ísraela. AFP

Ísrael mun verja sig „gegn öllum árásum“, sagði Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísrael, eftir að Ísrael stóð fyrir umfengsmestu loftárásum sem það hefur staðið fyrir í Sýrlandi í áratugi.

Árásir Ísraela beindust gegn írönskum skotmörkum, en Ísraelar fullyrða að þeir hafi hindrað för íranskra dróna sem hafi farið yfir landamærin sem Ísrael deilir með Sýrlandi.

Ísraelsk herþota af gerðinni F-16 var skotin niður af sýrlenska hernum á meðan á árásinni stóð og lenti hún innan landamæra Ísraels.

Þetta er í fyrsta skipti sem Ísraelar hafa misst flugvél í átökunum í Sýrlandi.

BBC segir Netanyahu hafa varað við því að það væri skýr stefna Ísraelsríkis að verja sig gegn „hverri tilraun til að skaða fullveldi“ landsins

„Íran braut af óskammfeilni gegn fullveldi Ísrael,“ sagði hann og bætti við: „Þeir sendu íranskan dróna frá sýrlensku landsvæði yfir til Ísrael. Ísraelar líta svo á að Íran og gestaþjóðin Sýrland beri ábyrgðina.“

Þá sagði Netanyahu Ísraelsmenn munu bregðast við öllum tilraunum Írana til að koma sér hernaðarlega fyrir í Sýrlandi. Á fundi með herforingjum sagði hann þó einnig að Ísrael leiti friðarlausna.

Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur sagst styðja rétt Ísraela til að verja sig og að áreksturinn sé sök Írana. Vladimír Pútín Rússlandsforseti ítrekaði hins vegar í símtali við Netanyahu hættu þess a auka á spennuna, en Rússar hafa stutt Bashar al-Assad Sýrlandsforseta og stjórn hans í Sýrlandsstríðinu.

Þá hefur Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hvatt til þess að dregið verði úr spennunni hið fyrsta. Hættulegt væri að láta hana ná yfir landamæri Sýrlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert