Fá morðhótanir vegna Brexit

Andrea Leadsom.
Andrea Leadsom. AFP

Breski ráðherrann Andrea Leadsom greindi frá því í dag á samfélagsmiðlum að hún hefði fengið sent bréf með morðhótunum vegna stuðnings hennar við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu sem gjarnan er kölluð Brexit.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að ýmsir fjárhagslegir bakhjarlar Íhaldsflokksins hafi einnig fengið slík bréf og breski þingmaðurinn Zac Goldsmith, sem situr á þingi fyrir íhaldsmenn, greindi á dögunum frá því að aldraður kjósandi hans fékk hliðstætt bréf með þeim skilaboðum að til stæði að drepa hana.

„Ef þú reynir að fjarlægja hluta af sjálfsvitund einhvers verða afleiðingar af því. Við höfum fylgst með þér leiða okkur fram á brún óvissunnar. Við munum ekki fylgjast með lengur. Þið hafið tekið líf okkar megin. Nú tökum við líf ykkar megin. Við erum á eftir þér.“

Þannig hljóðar bréfið sem Leadsom fékk og undir það er ritað „Hin raunverulegu 48 prósent“. Er þar vísað til þeirra sem urðu undir í þjóðaratkvæðagreiðslunni sumarið 2016 þar sem 52% kjósenda samþykkti útgöngu úr Evrópusamandinu.

Leadsom segir á Twitter um þetta: „Mjög ógeðfellt sama hver sendi mér þetta. Við búum í lýðræðisríki - morðhótanir vegna þess að maður er ekki sammála? Og óundirritað? Bleyða...“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert