Lýsa yfir neyðarástandi á Tonga

Fellibylurinn Gita olli töluverðu tjóni á Samóaeyjum. Búist er við …
Fellibylurinn Gita olli töluverðu tjóni á Samóaeyjum. Búist er við að Gita nái styrk fimmta stigs fellibyljar áður en hún fer yfir Tonga-eyjar og hafa yfirvöld þar lýst yfir neyðarástandi. AFP

Yfirvöld á Tonga-eyjaklasanum lýstu í dag yfir neyðarástandi og settu á útgöngubann í höfuðborginni Nuku'alofa, sem er á Tongatapu-eyju, en útlit er fyrir að að fellibylurinn Gita fari beint yfir eyjuna.

Gita hefur þegar valdið miklu tjóni á nágrannaeyríkinu Samoa og er nú útlit fyrir að hún verði orðin fimmta stigs fellibylur áður en hún skellur á Tonga.

Semisi Sika, settur forsætisráðherra Tonga, gaf út viðvörun og sagðist viss um að hættuástand væri að fara að myndast.

Veðurstofa Fiji hefur þegar spáð því að Gita nái styrk fimmta stigs fellibyljar áður en hún gengur á land á Tonga. Vindstyrkur fellibyljarins er þegar orðinn 275 km/klst.

Hermenn hjálpuðu í dag íbúum að undirbúa sig fyrir komu Gitu og búið var að opna neyðarskýli víðs vegar um eyjarnar.

Þá hefur verið sett á útgöngubann til að verja enn frekar íbúa og eigur þeirra.

„Við hvetjum fólk til að leita sér skjóls fyrir þessum hættulega fellibyl sem kann að verða sá öflugasti sem hefur gengið yfir í sögu landsins,“ sagði lögreglustjórinn Stephen Caldwell.

Veðurstofa Nýja-Sjálands segir útlit fyrir að fellibylurinn fari beint yfir Tongatapu, sem skapi hættuástand fyrir þá 75.000 sem búi í höfuðborginni.

„Það er sjaldgæft að sjá miðju stormsins fara beint yfir miðju svona lítillar eyju,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Philip Duncan, yfirmanni veðurstofunnar.  Fellibylurinn geti eftir sem áður valdið miklu tjóni jafnvel þótt hann fari ekki yfir eyjuna.

„Ef hann fer bara örlítið norður eða suður fyrir lendir hann ekki tæknilega séð á eyjunni. Með vinda sem fara yfir 230 km/klst. má búast við allt að 10 metra sjávarstöðu og svo ölduhæð ofan á það,“ sagði Duncan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert