Snúi aftur til Búrma eða sæti afleiðingunum

Flóttamannabúðir rohingja í Tombru á einskismannslandinu milli Búrma og Bangladess.
Flóttamannabúðir rohingja í Tombru á einskismannslandinu milli Búrma og Bangladess. AFP

Ráðherra í ríkisstjórn Búrma (Mijanmar) sagði rohingja-flóttamönnum sem hafast við á einskismannslandi á landamærum Búrma og Bangladess að þeir eigi að taka boði stjórnvalda að snúa aftur til Búrma, eða sæta „afleiðingum“ þess að vera þarna áfram.

Myndband er nú í dreifingu á samfélagsmiðlum sem sagt er sýna Aung Soe, aðstoðarráðherra innanríkismála, ávarpa hóp flóttamanna í gegnum gaddavír. Atburðurinn á að hafa átt sér stað síðasta föstudag.

Tæplega 700.000 rohingjar hafa frá því í fyrra leitað hælis í Bangladess er búrmíski herinn hóf „hreins­un­araðgerðir“ eft­ir að áður óþekkt­ur hóp­ur tók að ráðast á og drepa her­menn og ör­ygg­is­verði.

Ráðherrann beindi orðum sínum að 6.000 rohingjum sem hafast við í Tombru, sem er einskismannsland á milli Búrma og Bangladess.  Í myndbandinu sést hann segja rohingjunum að þeir verði að snúa aftur eða „taka afleiðingunum“ og að svæðið sem þeir séu á sé yfirráðasvæði búrmískra stjórnvalda.

Sagt að fara af búrmísku landi

„Neiti rohingjar tillögu stjórnvalda í Búrma í gegnum þessa sendinefnd, þá lofar það ekki góðu fyrir þá rohingja sem búa á einskismannslandi,“ sagði ráðherrann.

Öryggissveitir í Bangladess hafa staðfest komu ráðherrans á svæðið. „Hann var stöðugt að segja flóttamönnunum að fara af búrmísku landi eða þeirra biðu vandræði,“ hefur AFP-fréttastofan eftir lögreglumanninum Mohammad Rashid.

Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt rohingja sæta þjóðernishreinsunum, en stjórnvöld Búrma og Bangladess hafa engu að síður undirritað samkomulag sín á milli um að þeim rohingjum sem flúið hafa til Bangladess undanfarið verði gert að snúa aftur.

Margir þeirra hafa hins vegar sagst ekki vilja snúa aftur fyrr en stjórnvöld í Búrma veiti þeim ríkisborgararétt og tryggi öryggi þeirra.

Stjórnvöld í Búrma líta á rohingja sem innflytjendur frá Bangladess og neita þeim þess vegna um ríkisborgararétt, jafnvel þó að þeir hafi búið í landinu kynslóð fram af kynslóð.

Skjóta púðurskotum til að valda hræðslu

Landamæraverðir í Bangladess segja yfirvöld í Búrma hafa notast við gjallarhorn frá því á föstudag og hafi þau verið að segja flóttafólkinu að fara.

Þá hefur AFP eftir rohingjum á svæðinu að búrmíski herinn hafi nýlega sett upp tjöld nálægt gaddavírsgirðingunni. „Þeir (hermennirnir) skjóta oft púðurskotum til að valda hræðslu. Við fréttum líka að þeir hefðu kveikt í nálægu þorpi nýlega,“ sagði flóttamaðurinn Dil Mohammad.

Samtökin Læknar án landamæra telja 6.700 rohingja hið minnsta hafa farist í ofbeldisaðgerðum búrmíska hersins fyrsta mánuðinn eftir að fjöldaflóttinn hófst.

Margir þeirra hafa sagt átakanlegar sögur af nauðgunum, íkveikjum og fjöldamorðum sem þeir hafi sætt af hálfu hersins og hóps almennra borgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert