Í bann fyrir að gera grín að flugslysi

Hluti stuðningsmanna Nacional hegðaði sér ósæmilega í leiknum gegn Chapecoen­se.
Hluti stuðningsmanna Nacional hegðaði sér ósæmilega í leiknum gegn Chapecoen­se. AFP

Stuðningsmenn úrúgvæska knattspyrnuliðsins Nacional mega ekki koma á þrjá næstu leiki liðsins í Copa Libertadores, sterkustu liðakeppninni í Suður-Ameríku. Er það vegna þess að hluti þeirra gerði grín að flugslysi brasilíska liðsins Chapecoen­se árið 2016 en í því fórust flestir leikmenn Chapecoen­se.

Knattspyrnusamband Suður-Ameríku ákvað í dag að stuðningsmenn Nacional yrðu dæmdir í þriggja leikja bann en atvikið átti sér stað á leik liðanna 31. janúar. Auk þess var Nacional sektað um 80 þúsund dollara.

Chapecoen­se bað um að Nacional yrði vísað úr keppninni en við þeirri bón varð knattspyrnusambandið ekki. 

Talsmenn Nacional hafa beðist afsökunar á málinu og greina frá því að þeir stuðningsmenn sem létu verst fá ekki aftur að koma á leiki liðsins.

Alls lést 71 í flugslysi þegar flugvél með leikmenn og aðstandendur Chapecoen­se var á leið í leik í nóvember 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert