Laug til um fund með Pútín og sagði af sér

Halbe Zijlstra, fyrrverandi utanríkisráðherra Hollands.
Halbe Zijlstra, fyrrverandi utanríkisráðherra Hollands. AFP

Utanríkisráðherra Hollands, Halbe Zijlstra, sagði af sér í dag eftir að í ljós kom að hann hafði logið til um að hafa hitt Vladimir Pútin Rússlandsforseta. 

Fyrir tveimur árum síðan sagði Zijlstra að hann hefði orðið vitni að orðum Pútíns tíu árum fyrr. Pútín hafði þá sagt, samkvæmt Zijlstra, að hann hefði uppi hugmyndir um að útvíkka landamæri Rússlands. Zijlstra fullyrti að Pútín hefði sagt að hann liti á Eystrasaltslöndin, Hvíta-Rússland og Úkraínu sem hluta af Stór-Rússlandi.

Zijlstra viðurkenndi í gær að hafa ekki verið á fundi þar sem Pútín á að hafa fleygt þessu fram. Ráðherrann fyrrverandi fullyrðir hins vegar að hann hafi heyrt aðra tala um ummæli rússneska forsetans.

Zijlstra viðurkenndi að trúverðugleiki hans hefði beðið hnekki og af þeim sökum yrði hann að segja af sér. „Þetta voru mín stærstu mistök,“ sagði Zijlstra á þingi í dag. Hann sagði enn fremur að Hollendingar ættu skilið að vera með ráðherra með óflekkað mannorð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert