Málið upplýst 20 árum eftir barnsránið

Stúlkan fékk nafnið Kamiyah við fæðingu. Gloria Williams (t.h.) rændi ...
Stúlkan fékk nafnið Kamiyah við fæðingu. Gloria Williams (t.h.) rændi henni og gaf henni nafnið Alexis. Stúlkan er nú orðin nítján ára gömul. Skjáskot

Tveimur áratugum eftir að hún rændi barni af spítala og ól það upp sem sitt eigið hefur kona í Suður-Karólínu játað mannránið.

Hið einstaka mál er rakið í ítarlegri frétt á vef CNN. Þar segir að Gloria Williams, 52 ára, hafi þóst vera hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsi í Jacksonville í Flórída og tekið þaðan stúlkubarn nokkrum klukkustundum eftir að hún kom í heiminn 10. júlí árið 1998.

Móðir stúlkunnar, Shanara Mobley, sagði lögreglunni að kona sem hún hélt að væri hjúkrunarfræðingur hefði komið inn á fæðingarstofuna. Hún hefði beðið aðkomukonuna um að setja barnið sitt í vöggu en í stað þess tók hún barnið og fór með það út úr herberginu.

Samdi við saksóknara

Lögreglan segir að Williams hafi svo notað falsaða pappíra til að útvega stúlkunni fæðingarvottorð. Hún ól hana svo upp í Walterboro í Suður-Karólínu. Stúlkan er nú orðin nítján ára og heitir Alexis Manigo.

Saksóknarar ætla að fara fram á 22 ára fangelsi vegna mannránsins og fimm ára fangelsi fyrir skjalafals. Williams hefur gengist við þessu játað brot sitt. Refsingin verður kveðin upp í maí. Ef málið hefði farið fyrir dóm hefði Williams átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. Í samkomulagi sem hún hefur gert við saksóknaraembættið í Flórída má hún ekki segja sögu sína í bók, kvikmynd eða með öðrum hætti í hagnaðarskyni.

Alexis Manigo hefur hitt blóðforeldra sína en segist alltaf munu ...
Alexis Manigo hefur hitt blóðforeldra sína en segist alltaf munu líta á Williams sem móður sína. Skjáskot

Stúlkan, sem Williams gaf nafnið Alexis, hefur fengið upplýsingar um málið og veit nú að hún var nefnd Kamiyah Mobley við fæðingu en að konan, sem hún hélt vera móður sína, hafi rænt henni af sjúkrahúsinu.

Manigo hefur ekki viljað svara því hvenær hana fór að gruna að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera. Í dómsskjölum kemur þó fram, að því er segir í frétt CNN, að hún hafi vitað um raunverulegan uppruna sinn í einhverja mánuði.

Sagði sjálf frá mannráninu

Upp komst um málið eftir að samtök sem leita horfinna barna fengu ábendingu í ágúst árið 2016. Ábendingin snerist um það að Manigo hefði sagt frá því að sér hefði verið rænt sem ungbarni af sjúkrahúsi í Jacksonville. 

Lögreglan hóf að rannsaka málið og var uppruni stúlkunnar staðfestur með DNA-prófi. Stúlkan hefur nú hitt blóðforeldra sína. Hún sagði í viðtali í fyrra að hún elskaði konuna sem rændi henni og að hún liti enn á hana sem móður sína.

„Tilfinningar í garð móður minnar munu aldrei breytast,“ sagði hún.

mbl.is