Missti börnin eftir að brjóstin voru fjarlægð

Farið var með drengina á munaðarleysingjahæli í fyrra.
Farið var með drengina á munaðarleysingjahæli í fyrra. Facebook/Savinovskikh

Rússnesk kona sem lét fjarlægja brjóstin á sér hefur verið dæmd vanhæf til að sjá um tvo drengi sem hún ættleiddi. Rússneskur dómstóll segir að hún líti nú á sig sem karlmann og sé þess vegna vanhæf móðir.

Drengirnir voru teknir frá Yuliu Savinovskikh í ágúst í fyrra en hún áfrýjaði þeirri ákvörðun. Dómstóll í Yekaterinburg úrskurðaði að drengirnir, sem glíma við andleg veikindi, skuli áfram vera í umsjón félagsyfirvalda.

Savinovskikh segist enn vera kona og kveðst hafa farið í aðgerðina vegna þess að brjóstin hafi haft slæm áhrif á heilsuna. Áður en brjóstin voru minnkuð bloggaði hún líkt og hún væri að búa sig undir kynskiptaaðgerð. Hún segir að þau skrif hafi verið hennar leið til að takast á við aðgerðina þegar brjóstin voru fjarlægð.

Lögfræðingur Savinovskikh segir að málinu verði áfrýjað til æðri dómstóls og farið verði með það alla leið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu ef þurfi.

„Ég ætlaði ekki að fara í hormónameðferð og hafði ekki hugsað mér að skipta um kyn í vegabréfinu mínu. Börnin mín kalla mig mömmu,“ sagði Savinovskikh.

Hún hefur fætt þrjú börn en eiginmaður hennar styður hana í baráttunni til að ná drengjunum aftur. Þeir höfðu búið með fjölskyldunni í nokkur ár.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert