Varnarsamstarf ESB veldur áhyggjum

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. AFP

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), Jens Stoltenberg, varaði Evrópusambandið við því í dag að nýtt varnarsamstarf ríkja sambandsins mætti ekki grafa undan bandalaginu. Ummæli Stoltenbergs koma í kjölfar þess að bandarískir embættismenn hafa lýst áhyggjum sínum af áformum Evrópusambandsins.

Evrópusambandið kynnti í desember fyrirætlanir um að auka verulega samstarf ríkja sinna í varnarmálum og verja meðal annars betur fjármunum í verkefni tengd þeim. Bandarískir embættismenn óttast að með því verði minni áhersla lögð á NATO og að verndarhyggja verði innleidd þegar komi að framleiðendum vopnabúnaðar í Evrópu.

Stoltenberg, sem er fyrrverandi forsætisráðherra Noregs og leiðtogi norska Verkamannaflokksins, lét ummælin falla við upphaf fundar varnarmálaráðherra NATO í Brussel. Sagði hann engar líkur á því að Evrópusambandið gæti komið í staðinn fyrir NATO þegar kæmi að því að tryggja öryggi Evrópuríkja. Aukin fjárframlög til evrópskra varnarmála væru af hinu góða en aðeins ef það væri í samræmi við áætlanir NATO.

Samkeppni á milli Evrópusambandsins og NATO gerðu engum gagn. Bandamenn Evrópuríkja gerðu sér algerlega grein fyrir að varnir Evrópu hvíldu á NATO. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert