Villingurinn í dönsku höllinni

Hinrik og Margrét á svölum Amalíuborgar á 76 ára afmæli ...
Hinrik og Margrét á svölum Amalíuborgar á 76 ára afmæli drottningar. AFP

Á rigningardegi í september árið 1966, skömmu eftir að flugvél hafði lent á flugvellinum í Kaupmannahöfn, hafði hópur fólks safnast saman í þeim tilgangi að sjá manninn sem hafði fangað hjarta Margrétar Danaprinsessu. Danir voru yfir sig spenntir að hitta þennan framandi greifa með langa nafnið: Henri Marie Jean André de Laborde de Monpezat.

Unnustinn kom loks út úr flugvélinni með bros á vör og klæddur léttum jakka sem veitti lítið skjól fyrir danska haustveðrinu. Ljósmyndarar dagblaðanna smelltu af í gríð og erg.

Og um leið og hann steig á danska jörð breyttist líf þessa 32 ára gamla manns að eilífu.

Nú er Hinrik prins látinn, 83 ára að aldri. Danir syrgja nú manninn sem vildi fá að vera hann sjálfur þó að í huga margra tilheyrði hann fyrst og fremst dönsku þjóðinni.

Fór sínar eigin leiðir

Segja má að prinsinn hafi verið konunglegur villingur, eins og það er orðað í ítarlegri samantekt danska ríkisútvarpsins um ævi hans. Og þegar hann var kominn fram á efri ár hélt hann áfram að storka hefðum og siðum. Það kom því fáum á óvart er það var tilkynnt síðasta sumar, er Hinrik hafði enn einu sinni valdið ólgu með því að segjast ekki ætla að hvíla í gröf við hlið Margrétar, að hann væri kominn með heilabilun. Hafði prinsinn sagt að hann teldi sig ekki hafa staðið jafnfætis Margréti í huga fólks. Þannig hefði hann alltaf orðið að sætta sig við titilinn prins. „Konan mín vildi verða drottning og ég er mjög ánægður með það. En sem manneskja verður hún að átta sig á því að þegar kona og karl giftast þá eru þau jöfn,“ sagði Hinrik svo í viðtali við blaðamenn í ágúst í fyrra er hann var í fríi í kastala konungsfjölskyldunnar í heimalandi sínu, Frakklandi.

Margrét og Hinrik í ágúst árið 1998 með hundinn sinn, ...
Margrét og Hinrik í ágúst árið 1998 með hundinn sinn, Emmu. AFP

Í fréttaskýringu danska ríkisútvarpsins um ævi hans og störf segir að á þessu augnabliki hafi innri barátta hans í áratugi birst í einni hendingu.

Í kjölfar þessa viðtals sem skók þjóðina og yfirlýsingar konungshallarinnar um að hann þjáðist af heilabilun dró hann sig ekki í hlé heldur hélt áfram að koma stöku sinnum fram og slá á létta strengi.

Mikill húmoristi

Í janúar síðastliðnum var hann svo fluttur á sjúkrahús vegna lungnabólgu. Hann var í kjölfarið greindur með góðkynja æxli í öðru lunganu. Heilsu hans hrakaði hratt og var hann í gærdag fluttur heim í konungshöllina í Fredensborg þar sem hann lést svo klukkan 23.18 í gærkvöldi, umkringdur ástvinum sínum; Margréti og prinsunum Friðriki og Jóakim.

Hinriki hefur verið lýst sem miklum húmorista. Hann hafi verið barnslega forvitinn og fullur eldmóði í því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var vinur vina sinna en var viðkvæm sál. „Kímnigáfa hans gat verið jafnsvört og klæðnaður hans var marglitur,“ segir í fréttaskýringu danska ríkisútvarpsins.

Hinn ungi heitmaður Danaprinsessu, sem heilsaði dönsku þjóðinni í rigningunni árið 1966, lagði mikið á sig til að verða Dani. Hann skipti um nafn, sagði upp starfinu sínu og skipti um trú til að verða prins.

Er hann og Margrét gengu í hjónaband 10. júní árið 1967 gerði hann öllum ljóst í ræðu sinni að hann ætlaði sér að verða danskur. „Rétt eins og hver annar nemi þarf ég að kynnast Danmörku og Dönum – og ég á eftir að standast prófið með prýði.“ Ræðuna hélt hann á dönsku sem Dönum þótti mikið til koma.

Það átti þó eftir að sýna sig að danskan varð honum aldrei fullkomlega töm. Í höllinni talaði hann frönsku við konu sína og síðar syni. Hann komst að því að það var hægara sagt en gert að verða Dani eða að minnsta kosti að láta líta á sig sem Dana. „Í dag veit ég að ég mun aldrei tala 100% dönsku og það truflar mig,“ játaði prinsinn fjórum áratugum eftir að hann hélt ræðuna í brúðkaupi sínu. Sagði hann að líklega hefði mörgum fundist hann ekki leggja nógu mikið á sig, að honum þætti ekki nægilega vænt um þjóðina. „Mörgum hefur fundist að ég sé ekki danskur.“

Sjálfur leit Hinrik á sig sem bæði Dana og Frakka. Í hans huga gekk það bærilega upp.

Hinrik gerði sér vel grein fyrir sínu stærsta hlutverki sem var að styðja eiginkonu sína sem drottningu Danmerkur. Þennan stuðning kunni Margrét vel að meta og árið 1992, á 25 ára brúðkaupsafmæli þeirra, sagði hún Hinrik ávallt hafa verið til staðar fyrir sig, líka „þegar jörðin skalf undir fótum“ hennar. Ást þeirra hjóna var öllum augljós.

Með reynsluna í farangrinum

En hver var Hinrik prins áður en hann varð Hinrik prins?

„Hann kom til Kastrup-flugvallar [árið 1966] með reynsluna í farangrinum,“ skrifar blaðamaður danska ríkisútvarpsins. Hann var mjög fróður um heimsmálin og hafði ferðast víðar en flestir Danir og Frakkar á þeim tíma. 

Hinrik var mikill húmoristi og sló oft á létta strengi ...
Hinrik var mikill húmoristi og sló oft á létta strengi á opinberum vettvangi. AFP

Hann fæddist inn í auðuga kaþólska fjölskyldu í úthverfi Bordeaux 11. júní árið 1934. Hann ólst hins vegar upp í frönsku nýlendunni Indókína, sem síðar fékk nafnið Víetnam, þar sem fjölskyldan hafði byggt upp viðskiptaveldi í tvær kynslóðir.

Faðir hans, André de Laborde de Monpezat, stjórnaði fyrirtækinu en móðir hans, Renée de Monpezat, hélt stórt níu barna heimili í Hanoi. Hann varði meiri tíma með barnfóstrum sínum en foreldrunum og ævintýragirni hans dró hann út á götur Hanoi svo hann kynntist borginni vel.

Í Frakklandi í stríðinu

Fjölskyldan flutti aftur til Frakklands árið 1939 og settist að á búgarði sínum í Cahors og bjó þar á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Nokkrum árum síðar, er Hinrik var kominn á unglingsaldur, flutti fjölskyldan aftur til Indókína. Miklar breytingar höfðu átt sér stað í landinu og stríðið var í uppsiglingu. Er hann sneri aftur til Frakklands settist hann að í París. Hann nam lög um hríð en útskrifaðist með gráðu í frönskum bókmenntum og félagsvísindum frá háskólanum í Sorbonne. Hann lagði einnig stund á kínversku og víetnömsku og fór í háskóla í Hong Kong í þeim tilgangi.

Hann dreymdi um að verða sendiherra í Austurlöndum sem voru orðin honum mjög kær. Hann hóf því störf hjá utanríkisþjónustunni og var síðar boðið starf sem fulltrúi við franska sendiráðið í London. Er honum var boðið að verða sendiherra Frakka í Mongólíu, sem var draumastarf hans, afþakkaði hann. Skýringin kom í ljós síðar: Hann var orðinn ástfanginn af danskri prinsessu.

Bónorð í Kaupmannahöfn

Parið hafði kynnst í gegnum sameiginlega vini í London þar sem Margrét var við nám í London School of Economics. Ári eftir að þau kynntust hittust þau af tilviljun í Skotlandi og þá varð ekki aftur snúið.

Þau hittust á laun í nokkra mánuði. Hann bað hennar svo í Kaupmannahöfn einhverju síðar. Í kjölfarið hitti hann tilvonandi tengdaforeldra sína þau Friðrik konung og Ingrid drottningu.

Ellefu mánuðum eftir að þau giftu sig fæddist svo Friðrik prins. Ári síðar kom Jóakim prins í heiminn. Litla fjölskyldan settist að í Amalíuborg.

Friðrik konungur, faðir Margrétar, lést árið 1972 og þá var hún gerð að drottningu. Á þeim tímamótum fékk Hinrik titilinn prins.

Hinrik var mikill fjölskyldumaður og blíður afi.
Hinrik var mikill fjölskyldumaður og blíður afi. AFP

Hlutverkið var Hinriki ekki alltaf auðvelt. Í æviminningum hans sem komu út árið 1996 segir hann að bókstaflega allt sem hann gerði hafi verið gagnrýnt. Danskan hans þótti ekki nógu góð, hann drakk vín frekar en bjór, hann klæddist silkisokkum en ekki ullarsokkum og valdi Citroën frekar en Volvo. „Ég var öðruvísi. Ég lét sem mér stæði á sama um þetta og að ég skammaðist mín ekki – það voru tvenn mistök sem ég gerði.“

Vinnusamur

En Hinrik stóð alltaf í stykkinu við að uppfylla konunglegar skyldur sínar. Þannig sat hann í stjórnum um tuttugu félaga og samtaka í Danmörku og var verndari á sjöunda tug slíkra samtaka. Eftir að hann settist í helgan stein hélt hann þeirri vinnu sinni áfram.

Fræg er sagan að því hvernig hann sló í gegn í opinberri heimsókn sinni og Margrétar til Kína árið 1979. Andrúmsloftið í kvöldverðinum var frekar stirt þar til prinsinn hóf að tala mandarín og hélt síðar ræðu á kínversku. Þá var hann ætíð einstaklega orðheppinn og hafði unun af því að kynnast nýju fólki. Hann var heillaður af Grænlandi og lét sig málefni norðurslóða miklu varða. Hann var m.a. hvatamaður að því að stofna þjóðgarð á Grænlandi.

Hinrik var fyrsti prinsinn við dönsku hirðina. Áður en hann kom til sögunnar ríktu konungar í landinu sem tóku sér drottningar. Allt breyttist það með tilkomu Margrétar Danadrottningar. Og Henrik fékk aldrei titilinn konungur. Hann var alla sína tíð prins.

Hann fór ekkert í grafgötur með að hann var ósáttur við að standa ekki jafnfætis eiginkonu sinni. Hann var vinnusamur en fékk ekki alltaf viðurkenningu fyrir þá vinnu. Hann faldi því ekki ánægju sína er hann var útnefndur Dani ársins 2012.

Verður Mary drottning?

Hann grínaðist með hlutskipti sitt og sagði t.d. í viðtali á fimmtugsafmæli sínu að hann yrði vonandi einhvern tímann nógu gamall til að þurfa ekki að biðja Margréti eiginkonu sína um peninga fyrir sígarettum. Hann átti það til að gagnrýna misréttið í gegnum árin. Hann spurði til dæmis hvort Mary krónprinsessa myndi fá titilinn drottning er Friðrik yrði kóngur?

Danir voru stundum hneykslaðir á þessu titlatogi Hinriks. Þeir áttu bágt með að skilja að hann gæti ekki sætt sig við að vera kallaður prins. En málið varð aldrei risavaxið meðal dönsku þjóðarinnar. Þegar drottningin tilkynnti svo í nýársávarpi sínu árið 2015 að hann ætlaði að setjast í helgan stein var talið að nú myndi Hinrik róast. En svo varð ekki. Hann hélt sínu striki og mætti til konunglegra viðburða en lét vera að taka þátt í formlegum athöfnum á borð við setningu þingsins og opinberar heimsóknir.

Margrét og Hinrik í heimsókn sinni í Indónesíu árið 2015. ...
Margrét og Hinrik í heimsókn sinni í Indónesíu árið 2015. Hinrik var mjög hrifinn af Austurlöndum. AFP

Hinrik var ljóðrænn og skrifaði langa ljóðabálka bæði á dönsku og frönsku. Þá þýddi hann bækur franska femínistans og heimspekingsins Simone de Beauvoir yfir á dönsku. Hann var skapandi að mörgu öðru leyti og sköpunargáfan fékk svo einnig að njóta sín í eldhúsinu þar sem hann vann oft við hlið hins konunglega matreiðslumeistara.

Fjölskyldan framar öllu

Hinrik var mikill fjölskyldumaður og var ákaflega stoltur af sonum sínum, tengdadætrum og barnabörnum og átti í nánu sambandi við þau öll.

Hann var sagður hafa verið strangur faðir en var hins vegar sérstaklega blíður afi en hann eignaðist átta barnabörn. Er hann var spurður að því hvað skipti hann mestu máli var svarið einfalt: Fjölskyldan.

Hinrik prins var stundum umdeildur og kannski aldrei alveg danskur í huga dönsku þjóðarinnar. En flestir geta verið sammála um að hann gaf konungsfjölskyldunni líf með kímni sinni og listfengi. Eins og það er orðað í niðurlagi greinar danska ríkisútvarpsins:  Horfinn er nú lífsglaður maður sem var með stórt hjarta og breitt bros.

Útför Hinriks fer fram 20. febrúar í kapellu Kristjánsborgarhallar, að því er fram kemur í frétt RÚV. Jarðneskar leifar hans verði brenndar. Helmingi öskunnar verður dreift í hafið við strendur Danmerkur og hinn helmingurinn verður settur í duftker og jarðsettur í hallargarðinum við Fredensborgarhöll.

mbl.is
Óska eftir 3 herbergja íbúð í 109, Bakkahverfi
Erum þrír , faðir og tveir unglingar. í heimili og vantar íbúð í Bakkahverfinu á...
Vatnshitarar fyrir sumarhús.
Ýmsar gerðir af vatnshiturum 3300w til 21000w fyrir sumarhús, þessi búnaður er f...
UHD skjáir ( 4k )
Upplýsingar gefur Ólafur hjá Varmás ehf. sími 566 8144 ...
INTENSIVE ICELANDIC, ENGLISH, NORWEGIAN & DANISH f. foreigners - ÍSLENSKA f. útlendinga - ENSKA f. fullorðna - NORSKA
ÍSLENSKA, ENSKA, NORSKA, DANSKA I, II, III, IV, V, VI: STARTING DATES 2019: ...