Kallaði Trump helvítis skíthæl

Fólk er slegið yfir atburðum gærdagsins í Flórída.
Fólk er slegið yfir atburðum gærdagsins í Flórída. AFP

Nemandi við Mar­jory Stonem­an Douglas-fram­halds­skól­ann í Park­land í Flórída kallar Donald Trump Bandaríkjaforseta „skíthæl“ eftir að Nikolas Cruz skaut sautján til bana í skólanum í gær.

Nemandinn sem heitir Sarah hvatti forsetann til að gera eitthvað í stað þess að biðja fyrir þeim sem eiga um sárt að binda í kjölfar voðaverksins. 

„Við heyrðum skothvelli og það eru sjúkraliðar alls staðar. Einhverjir voru skotnir og sumir vina minna eru enn fastir inni í skólanum,“ skrifaði Sarah á Twitter í gær á meðan árásinni stóð.

Ni­kolas Cruz, 19 ára fyrr­ver­andi nem­andi við Mar­jory Stonem­an Douglas-fram­halds­skól­ann í Park­land í Flórída, hef­ur verið ákærður fyr­ir að hafa framið 17 morð af yf­ir­lögðu ráði við skól­ann í gær. Auk þess særðust 14 í árásinni.

„Ég sendi samúðarkveðjur og bið fyrir fjölskyldum fórnarlambanna vegna hinnar hræðilegu skotárásar í Flórída. Ekkert barn, kennari eða einhver annar ætti að vera óöruggur í skóla í Bandaríkjunum,“ skrifaði Trump á Twitter í gærkvöldi.

„Ég vil ekki samúðina þína helvítis skíthællinn þinn. Vinir mínir og kennarar voru skotnir og nokkrir bekkjarfélaga minna létust. Gerðu eitthvað í staðinn fyrir að senda kveðjur og biðja fyrir fólki. Bænir laga þetta ekki. Reglur um byssueign koma í veg fyrir að þetta gerist,“ skrifaði Sarah í svari við ummælum forsetans á Twitter.

Frétt Sky.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert