Alríkislögreglan viðurkennir mistök

Aðstandendur, vinir og nágrannar minnast fórnarlamba skotárásarinnar við Marjory Stoneman …
Aðstandendur, vinir og nágrannar minnast fórnarlamba skotárásarinnar við Marjory Stoneman Douglas framhaldsskólann í Parkland í Flórída. AFP

Talsmenn bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, hafa viðurkennt að hafa ekki fylgt eftir ábendingu tengda Nikolas Cruz, sem stofnunni barst í tvígang á síðastliðnum 6 mánuðum.

Cruz hefur játað að hafa skotið 17 manns til bana í framhaldsskóla í Flórída á miðvikudag. Hann hefur verið ákærður fyrir morðin og situr nú í gæsluvarðhaldi.

5. janúar barst alríkislögreglunni tilkynning í gegnum síma frá manneskju sem þekkti Cruz lítillega. Ábendingin innihélt upplýsingar um byssueign Cruz, þrá hans til að drepa fólk líkt og hann hafði lýst yfir á samfélagsmiðlum, óstöðuga hegðun hans og möguleika á að hann gæti framið skotárás í skóla.

Undir venjulegum kringumstæðum væri ábendingin flokkuð sem lífshættuleg. Einhverra hluta vegna fór ábendingin ekki hefðbundna leið í samskiptakerfi alríkislögreglunnar og barst því aldrei til svæðisskrifstofunnar í Miami. Talsmaður FBI staðfestir það í samtali við BBC.

Christopher Wray, yfirmaður alríkislögreglunnar, segir að stofnunin sé enn að rannsaka allar staðreyndir málsins. „Ég er staðráðinn í að komast til botns í því sem gerðist í þessu tiltekna máli, ásamt því munum við fara yfir ferli okkar þegar kemur að því að fylgja eftir upplýsingum sem við fáum frá almenningi,“ segir Wray.

Christopher Wray, yfirmaður alríkislögreglunnar, FBI.
Christopher Wray, yfirmaður alríkislögreglunnar, FBI. AFP

Alríkislögreglunni berast fjölmargar ábendingar á hverju ári og sem dæmi má nefna að árið 2016 barst stofnuninni um 1.300 ábendingar daglega í gegnum vefsíðu sína. 24 manns starfa við að taka á móti ábendingum allan sólarhringinn.

Ábendingin frá því í janúar er ekki sú fyrsta sem stofnuninni barst um Cruz. Í september í fyrra barst stofnuninni ábending vegna athugasemdar sem Cruz skrifaði við myndband á Facebook.

Frétt mbl.is: FBI bárust viðvaranir vegna Cruz

Notandi að nafni „nikolas cruz“ skrifaði að hann ætlaði sér að verða “at­vinnumaður í skotárás­um á skóla.“ Talsmaður FBI staðfesti í gær að stofnuninni hefði borist ábending þessu tengdu, en ekki hefði tekist að bera kennsl á þann sem bæri ábyrgð á athugasemdinni.

Rannsókn alríkislögreglunnar á ástæðum þess af hverju ekki var brugðist við ábendingunni frá því í janúar stendur enn yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert