Bauð fyrirsætu peninga eftir kynlíf

Donald Trump.
Donald Trump.

Donald Trump Bandaríkjaforseti átti í sambandi við Playboy-fyrirsætu árið 2006 en málið var þaggað niður nokkrum mánuðum áður en hann vann forsetakosningarnar haustið 2016. Donald og Melania Trump gengu í hjónaband árið 2005.

Fyrst var greint frá málinu í Wall Street Journal í nóvember 2016 en þá neitaði fyrirsætan, Karen McDougal, að tjá sig.

Samkvæmt fréttum vestanhafs hitti Trump McDougal í Playboy-gleðskap þegar hann var að taka upp raunveruleikasjónvarpsþáttinn The Apprentice í júní 2006. Playboy hefur fengið átta blaðsíðna skjal um sambandið en McDougal skrifaði undir það.

„Þetta er gömul saga og ekkert nema fleiri falsfréttir. Forsetinn hefur sagt frá því að hann hefur aldrei átt í sambandi við McDougal,“ sagði talsmaður Hvíta hússins þegar hann var spurður um málið.

Götublað í Bandaríkjunum keypti réttinn að sögu McDougal fyrir 150 þúsund dollara og neitar að birta hana. Hún segist því sjálf ekki geta sagt mikið um meint samband við forsetann.

„Mér líður eins og ég geti ekki talað um neitt án þess að lenda í vandræðum vegna þess að ég veit ekki hvað ég má tala um. Ég er meira að segja hrædd um að ég megi ekki nefna hann á nafn,“ sagði McDougal.

Samkvæmt bréfi sem McDougal skrifaði eftir Playboy-gleðskapinn sagðist hún vera hrifin af Trump og að hann væri afar kurteis maður. Hún bætti því við að eftir að þau sváfu saman hefði hann boðið henni peninga.

„Ég leit sorgmædd á hann og sagði að ég væri ekki þannig kona. „Ég svaf hjá þér vegna þess að ég er hrifin af þér, ekki fyrir peninga.“ Hann svaraði því til að ég væri einstök,“ skrifaði McDougal.

McDougal sleit sambandi við forsetann í apríl 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert