Tókst að sá ágreiningi meðal Bandaríkjamanna

Donald Trump gagnrýndi Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, fyrir að …
Donald Trump gagnrýndi Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, fyrir að hafa mistekist að stöðva Rússa. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í dag að Rússum hefði tekist, umfram sínar björtustu vonir, að sá ágreiningi meðal Bandaríkjamanna. Þingnefndir og sérstök rannsóknarnefnd hafa skoðað og rætt meint afskipti Rússa af forsetakosningunum árið 2016 þegar Trump var kosinn forseti. Hann sagði þó ekki beinum orðum að Rússar hefðu haft áhrif á kosningarnar. Þetta var meðal þess sem kom fram í tístum Trumps í dag á Twitter.

Í vikunni var tilkynnt um að þrettán Rússar og þrjú rússnesk fyrirtæki hafi verið ákærð fyrir ólögleg afskipti af kosningunum. Komu ákærurnar frá Robert Mueller, sem leiðir rannsókn á meintum afskiptum Rússa af kosningunum.

Rúss­arn­ir eiga að hafa þóst vera Banda­ríkja­menn og nýtt sér sam­fé­lags­miðla, líkt og Face­book, Twitter, In­sta­gram og YouTu­be, til að leggja áherslu á stjórn­mál og um­deild mál­efni. Sum­ir hinna ákærðu notuðu tölvu­kerfi í Banda­ríkj­un­um til að fela slóð þeirra til Rúss­lands.

Hinir ákærðu höfðu aðset­ur í St. Pét­urs­borg en ferðuðust til Banda­ríkj­anna. Þá hafi íbúi í Texas leiðbeint Rúss­un­um um hvernig þeir gætu ein­beitt sér að ríkj­um þar sem mjótt var mun­un­um á milli Don­ald Trump og Hillary Cl­int­on.

Trump hefur enn ekki tjáð sig um ákærurnar, en á Twitter í dag gagnrýndi hann Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, fyrir að hafa mistekist að stöðva Rússa. Gagnrýndi hann einnig alríkislögregluna fyrir að eyða of miklum tíma í að reyna að sanna tengsl kosningabaráttu Trumps við Rússa.

mbl.is