Feðgin fórust í snjóflóði

Fólk á skíðum í frönsku Ölpunum.
Fólk á skíðum í frönsku Ölpunum. AFP

Feðgin létust er snjóflóð féll í frönsku Ölpunum í gær. Faðirinn var 43 ára og dóttirin 11 ára. Þau voru á skíðum í brekkum Pisaillas-jökulsins í nágrenni Val d'Isère-skíðasvæðisins er flóðið féll.

Svæðið hafði verið lokað vegna hættu á snjóflóðum. Feðginin fundust á sunnudag í um 2.930 metra hæð.

Gönguskíðamaður fórst einnig í sama flóði.

Yfirvöld rannsaka nú hvers vegna feðginin voru að skíða á þessum stað en viðvaranir höfðu verið gefnar út til skíðamanna um að vera aðeins í ákveðnum og merktum brekkum.

Leit að feðginunum hófst í gær og voru m.a. þyrlur sendar á vettvang sem og sérhæfðir leitarhópar. Þau fundust svo síðdegis í gær í nágrenni klettabeltis.

Tveir slösuðust í snjóflóði í Sviss um helgina. Meiðsl þeirra eru ekki talin alvarleg.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert