Fékk 32 ára dóm fyrir kúgun og kynferðisbrot

Matthew Falder var í dag dæmdur í 32 ára fangelsi. …
Matthew Falder var í dag dæmdur í 32 ára fangelsi. Falder, sem kúgaði fórnarlömb sín til að senda sér sífellt kynferðislegri myndir, játaði á sig 137 brot. AFP

Breskur fræðimaður sem neyddi fórnarlömb sín til að senda sér sífellt kynferðislegri myndir var í dag dæmdur í 32 ára fangelsi fyrir brot sín. Myndunum hafði maðurinn deilt á dulnetinu. Hann játaði á sig 137 brot og hafði m.a. hvatt til nauðgunar á fjögurra ára dreng.

Fræðimaðurinn, dr. Matthew Falder, 29 ára, var jarðeðlisfræðingur við Birmingham-háskóla. Hann blekkti fórnarlömb sín með því að taka þátt í spjalli á opnum vefsvæðum sem þunglynd listakona. Plataði hann fórnarlömb sín til að senda sér sjálfsmyndir þar sem viðkomandi var ýmist nakinn eða fáklæddur. Í kjölfarið kúgaði hann fórnarlömbin síðan til að senda sér meira niðurlægjandi myndir, með því að hóta þeim að senda upprunalegu myndina á vini þeirra, fjölskyldu og vinnuveitenda.

Falder, sem notaði nöfnin  „evilmind“ og „666devil”,  deildi myndunum síðan á dulnetinu á sérstökum vefsvæðum þar sem málefni á borð við nauðganir, morð, sadisma, pyntingar, barnaníð, fjárkúgun og ýmiskonar niðurlæging voru rædd.

Er hann sagður hafa verið í samskiptum við rúmlega 300 manns víðsvegar um heiminn, en ákærurnar gegn honum sneru að brotum gegn 45 einstaklingum.

Saga um sífellt meiri fólskuverk

Lögregluyfirvöld höfðu uppi á Falder í júní í fyrra eftir fjögurra ára leit, þar sem breska lögreglan naut aðstoðar Europol og yfirvalda í Bandaríkjunum og Ástralíu.

Falder lýsti sig sekan af 137 ákærum, m.a. fyrir að hafa hvatt til nauðgunar og kynferðislegrar misnotkunar og fyrir að hafa tekið kynferðislegar myndir af börnum.

„Þetta er saga um sífellt meiri fólskuverk,“ sagði dómarinn Philip Parker er hann felldi dóm sinn.

„Áhrifin á þessar stúlkur, konur og karla voru eyðileggjandi. Skaðinn er unninn hvað þessa einstaklinga varðar og hann verður ekki bættur. Fólkið bað þig aftur og aftur að hætta. En aftur og aftur, þá jókst þú þrýstinginn.“

Að minnsta kosti þrjú fórnarlömb Falders, sem voru allt frá því að vera á táningsaldri og upp í þrítugsaldurinn, reyndu að fremja sjálfsmorð.

Þá tók Falder einnig myndbandsupptökur af fólki þar sem það var í sturtu, en slíkar myndavélar hafði hann falið á nokkrum stöðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert